Pétur Einarsson, forstjóri Straums fjárfestingarbanka, hefur gert samkomulag við bresk yfirvöld um að hann stjórni ekki fyrirtæki þar í landi næstu fimm árin vegna vangoldinna skatta.
Þetta kemur fram á vefsíðu The Insolvency Service, sem er sú stofnun í Bretlandi sem hefur með gjaldþrot fyrirtækja að gera.
Þar segir að Pétur megi ekki stjórna fyrirtæki í Bretlandi frá 15. febrúar 2013 til sama dags árið 2018. Fyrirtæki Péturs, CBridge Limited, sem skráð var í miðborg London, hafi verið skráð gjaldþrota í júní 2010 og hafi þá skuldað tæplega 192.312 pund í skatta.
Síðustu tvö árin fyrir gjaldþrotið hafi Pétur greitt sjálfum sér meira en 100.000 pund í hagnað til að „fjármagna eigin lífsstíl“ eins og segir á vefsíðunni, en hafi ekki sýnt neina viðleitni til að greiða skattana.
Talsmaður The Insolvency Service segir að með úrskurðinum séu skattayfirvöld að senda skýr skilaboð. „Forstjórar, sem láta hjá líða að greiða skatt af hagnaði fyrirtækja sinna, geta ekki búist við því að komast upp með það, sér í lagi ekki þegar hvatinn virðist vera sá helstur að viðhalda tilteknum lífsstíl,“ segir Mark Bruce hjá stofnuninni.