Eigandi Gæðakokka í Borgarnesi, Magnús Nielsson, segist hreinlega ekki skilja hvers vegna ekkert nautakjöt hafi verið í nautabökum frá fyrirtækinu sem Matvælastofnun rannsakaði. Hann viðurkennir hins vegar að vita upp á sig skömmina með ítölsku lambakjötsbollurnar.
„Ég stend bara hér og klóra mér í hausnum því þetta á ekki að geta komið fyrir að það fari út á markaðinn vara sem inniheldur ekki það sem er í uppskriftinni,“ segir Magnús í samtali við mbl.is eftir að Matvælastofnun birti niðurstöðu sína áðan.
Alfarið mitt klúður segir Magnús varðandi lambakjötsbollurnar
Magnús segir að það sé niðurstaða Matvælastofnunar að það sé ekkert kjöt í nautakjötsbökunum. „Ég bara skil þetta ekki en aftur á móti er annað varðandi lambahakksbollurnar. Það er bara handvömm hjá mér. Við vorum með magurt nautahakk á móti lambahakkinu til að ná niður fituinnihaldi. Svo náðum við að kaupa betra lambahakk og þá slepptum við nautahakkinu. Það er alveg rétt að það (nautahakk) er ekki í þessari framleiðslu. Það er alfarið klúður hjá mér sjálfum,“ segir Magnús.
Hann segist ekki kunna skýringar á þessu með kjötleysið í kjötbökunum því farið sé eftir uppskriftum við framleiðsluna og það sé nautahakk í uppskriftinni.
Magnús segir að Gæðakokkar kaupi nautakjöt frá Sláturfélaginu og hann viti það sjálfur að það sé fín vara sem þeir fá frá þeim. „Þetta eru ekki birgjar sem eru að svindla á mér heldur er þetta eitthvert innanbúðardæmi hjá mér,“ segir Magnús sem segist ekki geta trúað því að mistök hafi verið gerð við framleiðsluna þrátt fyrir að ekki sé hægt að útiloka það.
Hann segist vonast til þess að fleiri sýni verði tekin úr framleiðslunni, meðal annars á öðrum dagsetningum en gert var í rannsókn Matvælastofnunar, en þegar mbl.is ræddi við Magnús átti hann von á starfsmanni heilbrigðiseftirlits Vesturlands í heimsókn.