LÍN-frumvarp mun kosta 2 milljarða á ári

Katrín Jakobsdóttir mennta- og menningarmálaráðherra vonast til þess að frumvarp …
Katrín Jakobsdóttir mennta- og menningarmálaráðherra vonast til þess að frumvarp um námslán verði að lögum fyrir þinglok. Eggert Jóhannesson

Kostnaður ríkisins við nýtt frumvarp mennta- og menningarmálaráðherra um námslán verður um tveir milljarðar á ári. Frumvarpinu verður dreift núna í vikunni og vonast ráðherra til að það verði að lögum fyrir þinglok.

Frumvarpið felur í sér að þeir námsmenn, sem ljúka námi sínu á tilsettum tíma, fái fjórðung námslána sinna felldan niður. 

„Það er gert ráð fyrir því að frá og með árinu 2017, þegar þetta verður komið til framkvæmda, verði kostnaðurinn tveir milljarðar á ári,“ segir Katrín Jakobsdóttir, mennta- og menningarmálaráðherra. „Þetta er sá hluti sem er reiknaður út í þessari niðurfellingu á fjórðungi á grunnframfærslu námslána og miðast við að fólk sé að taka námslán allan sinn námstíma.“

Að sögn Katrínar miðast upphæðin, sem verður felld niður, við grunnframfærslu einstaklings á Íslandi og verður óháð fjölskylduaðstæðum og búsetu stúdenta. 

Þeir sem ljúka námi t.d. sex anna námi á sjö önnum fá síðan 70% af þessum fjórðungi lána sinna felld niður, en taki námið lengri tíma verður ekki um neina niðurfellingu á námslánum að ræða, að sögn Katrínar.

Gert ráð fyrir svigrúmi og mikið samráð haft

Hún segir að gert sé ráð fyrir tilteknu svigrúmi í frumvarpinu og að stjórn LÍN muni meta þær undanþágur sem farið verði fram á. 

„Það er gert ráð fyrir svokölluðum lögmætum frestunum, til dæmis ef fólk eignast barn, verður veikt eða þarf að taka sér hlé frá námi. Það verður líka tekið tillit til námserfiðleika. Við reynum auðvitað að taka tillit til sem flestra og vonumst til að þetta verði sem fyrst að lögum. Þetta er unnið í samráði við stúdenta og fulltrúa aðila á vinnumarkaði og við höfum reynt að hafa samráð við sem flesta,“ segir Katrín.

Frétt mbl.is: „Löngu tímabært,“ segja stúdentar

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert