Ólafur Ragnar Grímsson, forseti Íslands, vék að Icesave-dómnum í lok ræðu sem hann flutti á fundi með sendiherrum aðildarríkja OECD, Efnahags- og framfarastofnunarinnar, í París í morgun. Framan af fjallaði ræða forsetans um hagkerfi hreinnar orku og
sjálfbærni, en í lok hennar rakti hann Icesave-deiluna.
„Þegar hin svokallaða Icesave-deila kom upp, þar sem stjórnvöld í Bretlandi og Hollandi, studd af stjórnvöldum allra ESB-ríkja og öðrum, kröfðust þess að almennir borgarar á Íslandi; fiskimenn, bændur, kennarar, hjúkrunarfræðingar, myndu taka á sig ábyrgðina vegna hinna föllnu banka með hærri sköttum, þá þurftum við að velja á milli annars vegar fjárhagslegra hagsmuna eins og þeir voru kynntir fyrir okkur af stjórnvöldum í Evrópu og hins vegar lýðræðislegs vilja íslensku þjóðarinnar. Við völdum lýðræðið.“
Forsetinn sagði að eftir þjóðaratkvæðagreiðslurnar tvær, þar sem þjóðin hafnaði Icesave-samningunum, hefði efnahagur landsins farið að taka við sér. Þeir sem hefðu ráðið frá atkvæðagreiðslunum, hefðu haft algerlega rangt fyrir sér.
„Þegar EFTA-dómstóllinn úrskurðaði í síðasta mánuði að málsókn Breta, Hollendinga og ESB hefði ekki haft neina lagalega stoð, varð ljóst að til viðbótar við lýðræðislegan vilja þjóðarinnar voru réttlætið og lögin einnig á okkar bandi.“