Breski rithöfundurinn og fyrrum stjórnmálamaðurinn Jeffrey Archer segir í viðtali við nýsjálenska dagblaðið The New Zeland Herald að versta frí sem hann hafi upplifað hafi verið á Íslandi.
Í viðtalinu er hann spurður fjölda spurninga um ferðalög sín. Kemur þar meðal annars fram að það heimskulegasta sem hann hafi gert hafi verið að kaupa teppi í Tyrklandi og að uppáhalds flugvöllurinn hans sé í Boston.
Segir hann jafnframt að besta upplifunin hafi verið í Seoul þar sem hann var viðstaddur Sumarólympíuleikana. Aðspurður um verstu upplifunina sagði Archer: „Konan dró mig til Íslands fyrir nokkrum árum þar sem hún vildi fræðast um jökla. Ég gat ekki beðið eftir því að komast í flugvélina og aftur heim,“ segir Archer.
Þekktasta verk Archer er Kane and Abel sem kom út árið 1976 og komst á topp metsölulista New York Times. Hann er fæddur árið 1940 og komst á þing fyrir breska íhaldsflokkinn árið 1969. Hann var svo dæmdur til fjögurra ára fangelsisvistar árið 2000 fyrir meinsæri og að hindra framgang réttvísinnar í dómsmáli sem náði til ársins 1987.