Hæstiréttur staðfesti í dag úrskurð um nálgunarbann margdæmds rúmlega þrítugs ofbeldismanns gagnvart 16 ára gamalli stúlku. Stúlkan á við fíkniefnavanda að stríða og hefur margoft verið vistuð á meðferðarheimilum Barnaverndarstofu og það var Barnaverndarnefnd Reykjavíkur sem fór fram á nálgunarbannið.
Stúlkan hefur verið í harðri neyslu fíkniefna og í félagsskap sem talinn er henni hættulegur, eins og kemur fram í dómsorði. „Telpan hafi litla innsýn í vanda sinn og þá hættulegu stöðu sem hún sé í. Hafi það verið mat sóknaraðila að til þess að ná tökum á vanda hennar væri nauðsynlegt að vista hana á langtímameðferðarheimil fjarri þeim félagsskap sem hún sæki í og hafi það verið gert með hennar samþykki.“
Barnaverndarnefnd Reykjavíkur barst síðan tilkynning í lok síðasta mánaðar frá þeim stað þar sem stúlkan var vistuð að hún ætti í samneyti við manninn. „Þar kom fram að hún hafi talað um að hafa orðið vitni af grófum ofbeldisverkum s.s. barsmíðum varnaraðila og fylgt honum eftir þegar hann hafi ásamt vinum sínum innheimt vímuefnaskuldir. Þá leiki grunur á kynferðislegu sambandi þeirra sem staðfestur hafi verið af öðrum skjólstæðingum.“
Stúlkan hitti manninn reglulega á meðan hún var á meðferðarheimili á þessum tíma. Hún tók með sér tvær aðrar stúlkur sem dvöldu á heimilinu og þáðu þær allar fíkniefni af manninum. Maðurinn sótti stúlkuna einnig, stundaði með henni kynlíf og keypti handa henni fatnað, skartgripi og snyrtivörur og gaf henni fé.
Maðurinn hefur hlotið átta refsidóma og fjórum sinnum gengist undir sektarrefsingu vegna líkamsárása, auðgunarbrota, umferðar- og fíkniefnalagabrota.
Í úrskurði Héraðsdóms er manninum bannað að koma í nánd við þann stað þar sem stúlkan er nú í neyðarvistun á vegum barnaverndaryfirvalda. Þá er honum óheimilt að veita henni eftirför, heimsækja hana á aðra staði eða setja sig í samband við hana með einum eða öðrum hætti.