„Ég fékk lögregluna í heimsókn núna um hádegið og fékk afhent bréf frá Matvælastofnun þar sem segir að sex nautgripir verði fluttir af bænum fyrir helgi vegna vanfóðrunar. Þetta kom mér gjörsamlega í opna skjöldu, kýrnar mínar mjólka fyrir ofan landsmeðaltal, varla geta vannærð dýr gert það,“ segir Bjarni Bærings Bjarnason, bóndi á Brúarreykjum í Borgarfirði, sem hugsanlega verður sviptur starfsleyfi til mjólkurframleiðslu.
Það yrði ekki í fyrsta sinn, en starfsleyfi Bjarna var afturkallað í nóvember síðastliðnum, eftir að Matvælastofnun hafði gert athugasemdir m.a. við þrif á fjósi, mjaltaþjóni og mjólkurhúsi. Einnig voru þá gerðar athugasemdir við hreinleika gripa og að þéttleiki gripa væri slíkur að það kæmi niður á matvælaöryggi.
Hann fékk síðan framleiðsluleyfi til bráðabirgða í janúar, en jafnframt var óskað eftir því að hann gerði tilteknar úrbætur og fékk hann frest til þess til 11. febrúar.
Bjarni segir aðgerðir Matvælastofnunar koma sér á óvart og hyggst beita andmælarétti sínum. „Ég uni þessu að sjálfsögðu ekki. Þetta kom mér gjörsamlega í opna skjöldu. Ég mun kæra þetta, en sá aðili sem ég þarf að kæra til er Matvælastofnun sem hefur löggjafavaldið, dómsvaldið og framkvæmdavaldið í sínum höndum. Það má ímynda sér hvað kemur út úr slíkri kæru.“
Bjarni segir mjólkina úr kúnum á bænum fyrsta flokks. „Gripirnir mjólka vel, um eða yfir landsmeðaltali. Ég efast um að vannærð dýr geti mjólkað svona mikið. Ég er að mjólka yfir 1.000 lítra á dag, varla gætu illa haldin dýr framleitt svona mikið.“
Hann segir að honum hafi verið tjáð að gripirnir verði sóttir á morgun, áður en andmælarétturinn rennur út og það er hann afar ósáttur við. „Ég mun nýta mér andmælaréttinn, læt að sjálfsögðu heyra í mér. ég verð að verja dýrin. “