Össur bauð John Kerry til Íslands

Össur Skarphéðinsson sést hér ásamt starfsbræðrum sínum í Róm. John …
Össur Skarphéðinsson sést hér ásamt starfsbræðrum sínum í Róm. John Kerry er annar frá vinstri í fremstu röð á myndinni.

Össur Skarphéðinsson sat í gærkvöldi fund utanríkisráðherra ríkja Atlantshafsbandalagsins ásamt utanríkismálastjóra ESB, með John Kerry, nýjum utanríkisráðherra Bandaríkjanna, sem haldinn var í Róm. Á fundinum bauð Össur Kerry í heimsókn til Íslands og lýsti Kerry áhuga á að þiggja boðið.

Í tilkynningu frá utanríkisráðuneytinu segir, að í viðræðum við Kerry hafi ráðherrarnir rætt um samvinnu Íslands og Bandaríkjanna á Norðurslóðum og áhuga Kerrys á því að Bandaríkjamenn gerðust aðilar að hafréttarsáttmála Sameinuðu þjóðanna. Fram kom sterkur vilji hjá Kerry til að nýta reynslu og þekkingu Íslendinga á sviði fiskveiðistjórnunar og kvaðst hann vilja fá sérfræðinga og stjórnmálamenn til ráðgjafar á því sviði sem fyrst. Þá bauð Össur Kerry í heimsókn til Íslands og lýsti Kerry áhuga á að þiggja boðið, að því er fram kemur í tilkynningunni.

Á fundinum voru til umræðu öll helstu málefni sem varða samstarf Bandaríkjanna og Evrópu, jafnt á sviði öryggismála sem viðskipta.
 
Fram kemur í tilkynningunni, að utanríkisráðherra hafi í ræðum sínum lagt áherslu á mikilvægi þess að nýr utanríkisráðherra Bandaríkjanna beitti sér fyrir lausn á deilu Ísraels við Palestínumenn, og kvað nýjan glugga hafa opnast í því efni. Kosningar væru frá í bæði Bandaríkjunum og Ísrael, og ný staða hefði skapast fyrir Bandaríkin til að beita sér.
 
John Kerry hafi nú þegar átt viðræður við aðalsamningamenn Ísraela og Palestínumanna og sé ásamt Obama forseta á leið til Ísraels, þar sem skoðaðir verði möguleikar til að finna lausn sem byggir á tveggja ríkja lausninni.
 
„Í tilefni umræðna sem urðu um stöðuna í Sýrlandi tók utanríkisráðherra Íslands undir með nauðsyn þess að þjóðir heims styddu stjórnarandstöðuna í því að búa til nothæft stjórnkerfi sem væri fyrir hendi þegar nýir valdhafar tækju við í Sýrlandi, en undirstrikaði að ýmsar þjóðir bandalagsins gætu átt erfitt með að samþykkja beinar aðgerðir, sem ekki nytu stuðnings Öryggisráðs Sameinuðu þjóðanna.
 
Hann lagði jafnframt áherslu á fyrri samþykktir um stækkun Atlantshafsbandalagsins, og sagði nauðsynlegt að þær yrðu undirstrikaðar í verki með tillögum um stækkun þegar á næsta leiðtogafundi, enda væru nokkur ríkjanna á Balkanskaga á góðri leið með að uppfylla skilyrði um inngöngu.
 
Í tengslum við fundinn hélt utanríkisráðherra jafnframt áfram viðræðum við evrópska utanríkisráðherra um stöðu makrílmálsins og leitaði eftir áframhaldandi stuðningi gegn hugsanlegum viðskiptaþvingunum gegn makríl,“ segir í tilkynningunni.
 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert