World Outgames 2017, íþrótta-, menningar- og mannréttindahátíð samkynhneigðra verða haldnir á Miami Beach í Flórída. Þetta var tilkynnt í kvöld, en Reykjavík og Miami voru einar borga eftir í pottinum.
„Auðvitað vildum við fá leikana til okkar, en það verður ekki í þetta skipti. En það getur vel verið að við sækjum um að halda leikana 2021,“ segir Ingi Thor Jónsson, verkefnisstjóri undirbúningsnefndar World Outgames 2017.
„En það kom svo margt gott út úr þessari vinnu. Reykjavík á eftir að fá mörg góð verkefni út á þessa kynningu og það er t.d. strax búið að boða mig á fund með stjórn Evrópuleikanna 2018, Eurogames. Það er reyndar talsvert minni hátíð, en það væri frábært að fá hana til okkar,“ segir Ingi Thor.
Hann segist afar stoltur af öllum þeim sem komu að undirbúningi umsóknarinnar, margir hafi haft trú á því að þetta gæti orðið að veruleika. „En það er ljóst, að það á eftir að koma eitthvað virkilega jákvætt út úr þessu fyrir Reykjavík.“
World Outgames er íþrótta-, menningar- og mannréttindahátíð sem haldin er fjórða hvert ár og stendur yfir í tíu daga. Næstu leikar fara fram í Antwerpen í júlí í sumar. Sex til ellefu þúsund manns hafa að jafnaði tekið þátt í fyrri leikum.
Sendinefnd á vegum GLISA (Gay and Lesbian International Sports Association) kom til Reykjavíkur í janúar til þess að skoða aðstæður í framhaldi af umsókn Reykjavíkurborgar um að halda leikana. Nefndin hafði þá einnig skoðað aðstæður í Miami.
Auk Reykjavíkurborgar og mennta- og menningarmálaráðuneytisins taka fjölmargir aðrir þátt í að kynna borgina. Þeirra á meðal eru Íþróttasamband Íslands, Íþróttabandalag Reykjavíkur, Ráðstefnuborgin Reykjavík, Saga Film, Pink Iceland og Samtökin78.