„Þetta verður að skoða eins og allt annað“

Landspítalinn.
Landspítalinn. mbl.is/Hjörtur

„Þetta verður bara að skoða eins og allt annað,“ segir Björn Zoëga, forstjóri Landspítalans. „Það eina sem ég hef heyrt um að þetta hafi verið 20 uppsagnir kemur úr fjölmiðlum. Ég vissi að það hefðu verið einhverjar uppsagnir á lyflækningasviði, en ekki að þær væru svona margar.“

Formaður Félags almennra lækna sagði í viðtali við mbl.is fyrr í kvöld að 20 almennir læknar hefðu sagt upp störfum sínum á Landspítalanum og að þær tækju gildi 1. apríl.

„Við þurfum að athuga á morgun hvort þessar uppsagnir hafi borist og hvers vegna. Það hefur hvorki verið samtal frá þeim né stéttarfélagi þeirra um eitthvað sem væri ástæða til að segja upp út af. Þetta þarf að skoðast í rólegheitunum. Þegar fólk segir upp, þá er farið í gegnum það hvers vegna það gerir það og við þurfum að fá að vita það,“ segir Björn.

Formaður Félags almennra lækna sagði við mbl.is að félagsmenn hafi ekki getað náð eyrum stjórnenda sjúkrahússins. Björn segir svo ekki vera. „Hann [Ómar Sigurvin Gunnarsson, formaður Félags almennra lækna] hefur aldrei beðið um að fá að tala við mig. Það fá allir að tala við mig sem það vilja. Þannig að þetta stenst ekki.“

Björn Zoëga forstjóri Landspítalans.
Björn Zoëga forstjóri Landspítalans. Morgunblaðið/Árni Sæberg
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert