Verða World Outgames 2017 í Reykjavík?

Jón Gnarr tekur árlega þátt í Hinsegin dögum í Reykjavík.
Jón Gnarr tekur árlega þátt í Hinsegin dögum í Reykjavík. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Tilkynnt verður á fundi GLISA (Gay and Lesbian International Sports Association)  í Antwerpen í kvöld hvort Reykjavík eða Miami Beach í Flórída verður fyrir valinu sem mótstaður fyrir World Outgames leikana árið 2017.

Þetta kemur fram í frétt frá Reykjavíkurborg.

World Outgames er íþrótta-, menningar- og mannréttindahátíð sem haldin er fjórða hvert ár og stendur yfir í tíu daga. Næstu leikar fara fram í Antwerpen í júlí í sumar. Sex til ellefu þúsund manns hafa að jafnaði tekið þátt í fyrri leikum.

Sendinefnd á vegum GLISA kom til Reykjavíkur  í janúar  til þess að skoða aðstæður  í framhaldi af umsókn Reykjavíkurborgar um að halda leikana. Nefndin hafði þá einnig skoðað aðstæður í Miami.  Auk Reykjavíkurborgar og mennta- og menningarmálaráðuneytisins taka fjölmargir aðrir þátt í að kynna borgina. Þeirra á meðal eru Íþróttasamband Íslands, Íþróttabandalag Reykjavíkur, Ráðstefnuborgin Reykjavík, Saga Film, Pink Iceland og Samtökin78.

Valið fer þannig fram að stjórn GLISA og sendinefndir Miami og Reykjavíkurborgar verða með fund þar sem borgirnar tvær sem keppa um leikana kynna kosti sína sem mótshaldari. Að því loknu verður opnað fyrir spurningar og svör. Sendinefnd GLISA kynnir svo niðurstöður sínar af skoðunarferð til borganna.  Að því loknu fer fram rafræn kosning á meðal eitt hundrað aðildarfélaga GLISA og niðurstaða hennar ræður úrslitum um hvor borgin verður fyrir valinu.

Tilkynnt verður í dag, 28. Febrúar, klukkan 21 að íslenskum tíma hvort það kemur í hlut Reykjavíkur að halda  World Outgames leikana árið 2017 eða hvort Miami verður fyrir valinu.

Hér má sjá kynningu á Reykjavíkurborg sem gestgjafa.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka