Maðurinn sem sætir nálgunarbanni og óheimilt er að koma nærri sextán ára stúlku sem vistuð er á meðferðarstofnun er margdæmdur ofbeldismaður og hlaut síðast fimm ára dóm í janúar síðastliðnum fyrir hrottalega nauðgun. Hann á að baki sakarferil til ársins 1997.
Eins og greint var frá á mbl.is í gær staðfesti Hæstiréttur úrskurð Héraðsdóms Reykjavíkur þess efnis að maðurinn, Stefán Logi Sívarsson, skuli sæta nálgunarbanni til 4. febrúar 2014. Á því tímabili er honum er ekki heimilt að koma í 50 metra radíussvæði umhverfis þá staði þar sem stúlkan dvelst eða gengur í skóla.
Jafnframt er honum óheimilt að veita henni eftirför eða setja sig í samband við hana, t.d. símasamband, í gegnum smáskilaboð eða internetið.
Umræddur maður, Stefán Logi, er 32 ára og á að baki sakarferil sem nær aftur til ársins 1997, þó lögregla hafi þurft að hafa afskipti af honum fyrr. Í umfjöllun DV um brotaferil Stefáns Loga kom fram að lögregla hafði fyrst afskipti af Stefáni Loga árið 1992 en þá réðst hann ásamt bróður sínum á unga móður og gekk harkalega í skrokk á henni í á Eiðistorgi. Móðirin hafði þá reynt að vernda börn sín fyrir þeim.
Í júlí 1998 var Stefán Logi dæmdur fyrir að brjótast inn í íbúðir, skólahús og bifreiðar. Einnig fyrir þrjár líkamsárásir.
Hann sakfelldur fyrir að slá karlmann með krepptum hnefa í andlitið fyrir framan útidyr sjúkrastöðvarinnar Vogs og nokkru síðar fellt hann í gólfið og tekið hann hálstaki.
Einnig fyrir að slá karlmann nokkrum höggum í andlit á Eiðistorgi á Seltjarnarnesi og rænt af honum síma hans.
Þá réðist hann í félagi við bróður sinn á karlmann við áramótabrennu við Ægissíðu í Reykjavík.
Við ákvörðun refsingar var litið til þess að Stefán Logi var aðeins 16 ára þegar hann framdi brotin. Hlaut hann því sex mánaða fangelsi en þrír mánuðir voru bundnir skilorði.
Stefán Logi sætti gæsluvarðahaldi um tíma vegna þessara brota sinna og segir í einum gæsluvarðhaldsúrskurða að hann hafi viðurkennt að stunda afbrot til að fjármagna fíkniefnaneyslu og til að greiða fíkniefnaskuldir.
Þá má nefna að Stefán Logi var í október 2004 dæmdur í þriggja ára fangelsi fyrir sérstaklega fólskulega líkamsárás. Þá réðist hann á 16 ára pilt og sló hann með krepptum hnefa í andlit og maga svo hann féll í gólfið og sparkaði svo í kvið hans þar sem hann lá á gólfinu.
Afleiðingarnar urðu þær að milta piltsins rifnaði og af hlaust lífshættuleg innvortis blæðing. Jafnframt hlaut pilturinn áverka á kjálka og jaxl í neðra gómi hans brotnaði.
Fram kom í dómnum að samkvæmt sálfræðilegri rannsókn ætti Stefán Logi við ýmiss konar félagsleg og persónuleg vandamál að stríða, sem að langmestu leyti má rekja til fíkniefnaneyslu hans frá unga aldri og mjög erfiðra uppeldisskilyrða.
Síðasti dómur sem Stefán Logi hlaut var 11. janúar síðastliðinn. Þá hlaut var hann dæmdur í fimm ára fangelsi fyrir nauðgun sem framin var í félagi við annan. Voru þeir sakfelldir fyrir að hafa aðfaranótt sunnudagsins 27. nóvember 2011 með ofbeldi og ólögmætri nauðung þröngvað átján ára gamalli stúlku til samræðis og annarra kynferðismaka, en þeir héldu í hendur hennar og nýttu sér yfirburði sína vegna aðstöðu- og aflsmunar.
Í málinu kom fram að Stefán afklæddi stúlkuna og þröngvaði henni til samræðis og síðan skiptust mennirnir á að þröngva henni til munnmaka við hvorn um sig á meðan hinn hafði við hana samræði.
Maðurinn áfrýjaði dómnum og gengur því laus þar til málið verður tekið fyrir hjá Hæstarétti.
Í úrskurðinum um nálgunarbannið sem birtur var í gær kemur fram að Stefán Logi hafi ásamt vinum sínum innheimt vímuefnaskuldir. Stúlkan sextán ára hafi orðið vitni að grófum ofbeldisverkum Stefáns Loga sem fylgt hafi innheimtunni.
Þá hafi Stefán Logi útvegið stúlkunni fíkniefni sem hún tók með sér á meðferðarheimilið og hann keypt handa henni fatnað, snyrtivörur, skartgripi, látið hana hafa farsíma og fjármuni. Þá hafi átt í kynferðislegu sambandi.
Þá segir að það sé nauðsynlegt að stúlkan fái ekki tækifæri til að umgangast Stefán Loga frekar „enda hafi hann með háttsemi sinni truflað mjög meðferð hennar og mögulegan bata með því að útvega henni vímuefni og með heimsóknum til hennar.“