Ríkisstjórnin samþykkti fyrir sitt leyti í morgun tillögu innanríkisráherra um að hefja útboð fyrir strandsiglingar og var innanríkisráðherra og fjármálaráherra falin framkvæmd útboðsins þannig að strandsiglingar gætu hafist síðar á þessu ári.
Um er að ræða tilraunaverkefni til sex ára þar sem siglt yrði vikulega á allt að sjö hafnir og er gert ráð fyrir að fastbinda fjórar hafnir sérstaklega í útboðinu, Reykjavík, Ísafjörð, Akureyri og Reyðarfjörð. Fleiri hafnir kæmu að sjálfsögðu til greina sem fastir viðkomustaðir en aðrar hafnir eftir atvikum.
Innanríkisráðherra skipaði nefnd undir formennsku Guðmundar Kristjánssonar, hafnarstjóra á Ísafirði, í maí 2011 til að gera tillögur um þetta efni og hafa útboðsgögn verið undirbúin á grunni starfs þessarar nefndar.
Samskip hafa þegar ákveðið að hefja strandsiglingar við Ísland. Í frétt frá Samskip segir að sjóflutningar til og frá Íslandi með nýrri siglingarleið hefjist 18. mars næstkomandi.
„Flutningaskip á vegum félagsins fer þá frá Reykjavík til Ísafjarðar, Akureyrar og Reyðarfjarðar og þaðan til Immingham í Bretlandi og Rotterdam í Hollandi með viðkomu í Kollafirði í Færeyjum. Frá Rotterdam heldur skipið heim á leið, kemur til Reykjavíkur sunnudaginn 31. mars og leggur af stað í nýja hringferð daginn eftir, 1. apríl. Viðkomustöðum verður hugsanlega fjölgað í framtíðinni,“ segir í fréttinni.