Starfsmannastjóri Landspítalans segir að um 25 almennir læknar á Landspítalanum, þ.e. læknar sem eru án sérfræðileyfis, hafi sagt upp störfum í gær. Stjórnendur sjúkrahússins ætla að ræða við læknana í næstu viku til að leita skýringa á uppsögnunum.
„Það eru líklega um 25 almennir læknar sem hafa sagt upp störfum,“ segir Erna Einarsdóttir, starfsmannastjóri LSH, í samtali við mbl.is. Hún segir að þeir starfi á tveimur sviðum, eða á kvenna- og lyflækningasviði sjúkrahússins.
Spurð hvort læknarnir hafi gefið skýringar á uppsögnunum segir Erna: „Nú erum við að fara í þá vinnu að hitta hvern og einn og sjá hvað það er sem gerir það að verkum að þeir ákváðu að segja upp störfum.“
Hún bætir við að um einstaklingsuppsagnir sé að ræða sem bárust seinni partinn í gær. Flestir almennu læknanna eru ráðnir til eins árs í senn og er uppsagnarfrestur þeirra einn mánuður.
„Við vitum náttúrulega vel af þessum óróleika hér,“ segir Erna þegar hún er spurð hvort uppsagnirnar hafi komið stjórnendum sjúkrahússins á óvart. Þetta eigi við alla starfshópa á sjúkrahúsinu, en margir hafa kvartað undan lágum launum og miklu álagi.
Þá segir Erna að rætt verði við læknana sem sögðu upp eftir helgi. „Við munum sannarlega tala við þessa starfsmenn eins og aðra sem segja upp störfum hérna hjá okkur.“