„Mér finnst þetta nú frekar afleitt“

Þór Saari, þingmaður Hreyfingarinnar.
Þór Saari, þingmaður Hreyfingarinnar. mbl.is/Ómar Óskarsson

„Mér finnst þetta nú frekar afleitt,“ segir Þór Saari, þingmaður Hreyfingarinnar, spurður um viðbrögð hans við þeirri ákvörðun Ástu Ragnheiðar Jóhannesdóttur, forseta Alþingis, að verða ekki við þeirri ósk meirihluta stjórnskipunar- og eftirlitsnefndar þingsins um að þingfundur verði haldinn næstkomandi mánudag í stað nefndardags til þess að halda áfram umræðu um frumvarp að nýrri stjórnarskrá.

Spurður hvort hann kunni að leggja á ný fram vantrauststillögu á ríkisstjórnina vegna málsins segir Þór að það verði að koma í ljós hvort ríkisstjórnarflokkarnir leggi fram einhverja raunhæfa áætlun um það hvernig megi afgreiða málið. „Maður þarf bara að sjá til með það. Maður auðvitað  bara reynir að ræða við fólk yfir helgina og athuga hvernig staðan verður.“

Spurður hvort stjórnarflokkarnir hafi kynnt einhverjar hugmyndir um það hvernig megi lenda málinu segir hann svo vera. „Menn hafa náttúrulega verið að ræða saman undanfarna daga en það er ekkert komið neitt ákveðið út úr því ennþá.“

Þór segir að það sé hins vegar ljóst að málið sé að renna út á tíma. Spurður hvort þær hugmyndir sem viðraðar hafi verið við hann gefi honum von um að hægt verði að afgreiða málið áður en þingstörfum ljúki segist hann hóflega bjartsýnn.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert