Tollgæslan stöðvaði tæplega sjötugan karlmann nýverið í Leifsstöð við komu hans til landsins vegna gruns um að hann væri með ólögleg lyf meðferðis. Sá grunur reyndist á rökum reistur, því maðurinn var með um 70 þúsund skammta af sterum og fleiri ólöglegum lyfjum í farangri sínum. Um var að ræða töflur, ambúlur, lyfjatúbur, svo og sprautunálar.
Lögreglan á Suðurnesjum handtók manninn, sem er íslenskur en hefur dvalið mikið erlendis og farið var í húsleit á heimili hans hér á landi. Þar fannst töluvert magn lyfja til viðbótar.
Þetta er ekki í fyrsta skipti, sem umræddur maður gerist brotlegur við lög. Áður hafði hann reynt að smygla til landsins 800 töflum af lyfinu Kamagra, sem er stinningarlyf, en ólöglegt hér á landi. Tollgæslan stöðvaði þá sendingu einnig.