„Stundum fær maður nei og stundum fær maður já. Það er ekkert við því að gera,“ segir Valgerður Bjarnadóttir, þingmaður Samfylkingarinnar og formaður stjórnskipunar- og eftirlitsnefndar Alþingis, en forseti þingsins, Ásta Ragnheiður Jóhannesdóttir, hefur hafnað ósk meirihluta nefndarinnar um að þingfundur yrði á mánudaginn í stað nefndadags svo hægt yrði að halda áfram umræðu um frumvarp að nýrri stjórnarskrá.
„Þannig að ef það er nei þá er það bara nei og ég auðvitað lýsi yfir vonbrigðum mínum með það,“ segir Valgerður. Spurð hvort þetta sé ekki til þess fallið að minnka líkurnar á því að hægt verði að afgreiða málið á þessu þingi tekur hún undir það: „Mér sýnist það vera augljóst.“
Þingfundur verður næst samkvæmt starfsáætlun Alþingis næstkomandi miðvikudag 6. mars en óvíst er þó hvort stjórnarskrárfrumvarpið verði tekið fyrir þá. Gert er ráð fyrir því að þingið ljúki störfum um miðjan þennan mánuð.