Umræðan snýst of mikið um biðraðir

Biðröð við húsakynni Fjölskylduhjálpar Íslands.
Biðröð við húsakynni Fjölskylduhjálpar Íslands. Ernir Eyjólfsson

Kominn er tími á nýja nálgun í umræðu um fátækt á Íslandi. Hún snýst því miður of oft um biðraðir fyrir jól og loforð fyrir kosningar. Þetta segir Vilborg Oddsdóttir, félagsráðgjafi hjá Hjálparstofnun kirkjunnar, sem ásamt fleirum stóð í dag fyrir málþingi um farsæld og fátækt á Íslandi. Þar voru fulltrúar stærstu stjórnmálaflokkanna.

Fundurinn var haldinn í Þjóðminjasafninu á vegum Samstarfshóps um enn betra samfélag og þar var til umræðu skýrsla um stöðu fátækra í landinu sem kynnt var síðastliðið haust.

„Við kynntum þeim skýrsluna okkar og vorum að kynna þeim aðrar leiðir í hugsun um fátækt. Við þurfum að nálgast umræðuna á annan hátt, en ekki endalaust út frá upphrópunum og klisjum í kringum kosningar og jól. Við þurfum samfélagssáttmála, við þurfum að breyta þessu samfélagi sem við búum í út frá mannréttindahugsun og valdeflingu,“ segir Vilborg.

Svartur blettur á þjóðinni

Á fundinn voru boðaðir fulltrúar þeirra flokka sem nú eiga sæti á Alþingi og Vilborg segir þá almennt hafa tekið vel undir þær hugmyndir sem fram komu. „Það er óhætt að segja að þeim hugnaðist þessi nálgun. Þarna fóru fram góðar umræður og ég held að fólk vilji hætta að kenna hvoru öðru um. Við vorum sammála um að fátækt væri svartur blettur á þjóðinni og það þarf að hætta að kýta um þetta, heldur taka saman höndum og leysa vandann.“

Við viljum þetta ekki

Verður framhald á þessum viðræðum ykkar við stjórnmálamennina? „Við vitum það ekki, við viljum það vissulega, en núna erum við að varpa boltanum aftur til þeirra. Það var a.m.k. á fulltrúum flokkanna að heyra að þetta væri forgangsmálefni.“

„Áherslur flokkanna eru auðvitað mismunandi, eins og við er að búast, en allir voru sammála um að fátækt ætti ekki að vera til hér á landi. Við værum of rík þjóð til þess. Við eigum að hætta þessum upphrópunum, hætta að kenna einhverjum um eða segja að fólkið eigi bara að taka sig saman og fara að vinna. Sem þjóð eigum að segja: við viljum þetta ekki og við ætlum að breyta þessu,“ segir Vilborg.

Vilborg Oddsdóttir.
Vilborg Oddsdóttir. mbl.is
Kominn er tími á nýja nálgun í umræðu um fátækt …
Kominn er tími á nýja nálgun í umræðu um fátækt á Íslandi. mbl.is/Þorkell Þorkelsson
mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert