Framsóknarflokkurinn vill að matvælaframleiðsla á Íslandi verði stóraukin og hyggst þingflokkur framsóknarmanna leggja fram tillögur þess efnis á Alþingi mánudag.
Bent er á það í greinargerð með tillögunni að jarðarbúum fjölgi um 200 þúsund á hverjum degi og að matvælaþörf heimsins verði 70% meiri árið 2050 heldur en hún er í dag. Þá muni til að mynda vanta mjólk á kínverskan markað sem nemi heildarframleiðslu Frakklands, Rússlands og Bandaríkjanna.
Ennfremur kemur fram að í ljósi fyrirsjáanlegrar þróunar matvælaverðs í heiminum, loftslagsbreytinga og takmörkuðu aðgangi að auðlindum til matvælaframleiðslu felist miklir möguleikar í að stórauka slíka framleiðslu hér á landi. Íslendingar séu fámenn þjóð sem eigi hins vegar mikið ræktunarland, miklar orkulindir og mikið vatn. Í því felist sóknarfæri fyrir íslenska matvælaframleiðslu.