„Það virðist vera einbeittur vilji um að klára málið ekki. Ég held að ég geti ekki annað en samþykkt að senda þetta þing heim ef slík tillaga kæmi á dagskrá þess,“ segir Birgitta Jónsdóttir, þingmaður Hreyfingarinnar, en Árni Páll Árnason, formaður Samfylkingarinnar, sagði í dag ljóst að ekki væri hægt að afgreiða frumvarp að nýrri stjórnarskrá á þessu kjörtímabili.
„Víst er hægt að klára þetta. En nei, forseti þingsins og formaður Samfylkingarinnar vilja það ekki ásamt stjórnarandstöðunni. Ekki var fundað á föstudaginn og Ásta Ragnheiður neitar að setja stjórnarskránna á dagskrá á mánudaginn,“ segir Birgitta ennfremur á Facebook-síðu sinni í dag. Vel sé hægt að afgreiða málið á þessu þingi ef einlægur vilji standi til þess.
Hún segir ekkert nema skemmdarverk í gangi. „Kvótafrumvarpið stórhættulegt og ljóst að það eigi að keyra það áfram með ofbeldi. Árni Páll hinn tungulipri lofaði því þó að það myndi ekki gerast. Það kæmi mér ekki á óvart að ályktun um forvirkar rannsóknarheimildir verði líka samþykkt sem og happadrættisstofa.“