Lögreglu og Samtök verslunar og þjónustu greinir á um þróunina í búðaþjófnaðamálum. Lögregla geti aðeins byggt tölfræði sína á tilkynningum um þjófnaði en verslanir meti gjarnan út frá rýrnun. Því telja verslanir að aukningin sé gríðarleg en lögregla telur fjölda þjófnaðarbrota í jafnvægi.
Í þættinum 112 í MBL Sjónvarpi er fjallað um búðaþjófnaði og meðal annars þróunina í málaflokknum. Meðal þess sem framkvæmdastjóri Samtaka verslunar og þjónustu segir er að merkjanleg breyting hafi orðið eftir árið 2006 þegar vinnumarkaðurinn var opnaður til Mið- og Austurevrópuríkja. Umfang brotanna hafi þá aukist.
Aðalsteinn Aðalsteinsson, rannsóknarlögreglumaður, segir að þróunin undanfarin ár hafi verið í jafnvægi. Erfitt sé að taka undir með samtökunum um fjölgun þjófnaða þar sem byggt sé á tilkynningum. Lögreglan sé með málaflokkinn í þokkalega góðum horfum, þó alltaf megi gera betur.