„Verðbólguskriða hófst í velferðarráðuneytinu“

Þorsteinn Pálsson, fyrrverandi forsætisráðherra.
Þorsteinn Pálsson, fyrrverandi forsætisráðherra. mbl.is/Rax

„Vandinn sem við stöndum frammi fyrir í augnablikinu er að það er að fara af stað verðbólguskriða. Það er búið að ýta henni af stað. Verði hún ekki stöðvuð verður hér á næstu árum óðaverðbólgutími,“ sagði Þorsteinn Pálsson, fyrrverandi forsætisráðherra í þættinum Silfri Egils í dag þar sem hann undraðist að enginn stjórnmálaflokkur væri að tala fyrir því að stöðva verðbólguskriðuna.

Hófst í velferðarráðuneytinu

Hann segir verðbólguskriðuna hafa hafist með einni ákvörðun um launahækkun í velferðarráðuneytinu og vísaði þar til ákvörðunar Guðbjarts Hannessonar, velferðarráðherra, um að hækka laun forstjóra Landspítalans í fyrra sem síðar var dregið til baka.

„Við bætum ekki lífskjörin og styrkjum ekki velferðarkerfið nema að auka framleiðsluna í landinu og auka framleiðni,“ sagði Þorsteinn.

Hann vill hugsa sjávarútvegskerfið upp á nýtt og út frá því sjónarmiði að sjávarútvegurinn skili hámarksframleiðni. Hann segir framleiðnina eina skila almenningi mestum arði. Í þessu samhengi segir hann fleiri en eina leið vera til.

Þorsteinn segir mikilvægt að auka útflutningsframleiðslu mjög verulega og að nýjar atvinnugreinar nái hér fótfestu. En til þess þurfi að tryggja sömu samkeppnisstöðu og sömu leikreglur hér á landi og gilda á helstu mörkuðum Íslendinga. Í þessu samhengi vísar hann til inngöngu Íslands í Evrópusambandið.

Hann segir aðild að ESB snúast um að tryggja að nýju að verðmæti verði til í útflutningi. „Sem við þurfum á að halda til þess að halda uppi lífskjörum og verja velferðarkerfið,“ segir Þorsteinn.

Kjósendur geta gert málið að kosningamáli

Hann segir að flest hafi bent til þess að ákvörðun um aðildarferlið yrði tekin um síðustu helgi þegar landsfundi Vinstri grænna og Sjálfstæðisflokksins fóru fram. Hann hafi talið fyrirfram að með því að VG, Sjálfstæðisflokkur og Framsóknarflokkur hefðu allir ályktað um að hætta aðildarferlinu yrði ljóst að málið yrði varla kosningamál. Ákvörðun landsfundar VG um að ljúka ferlinu breyti þessari stöðu og nú geti kjósendur sjálfir ákveðið hvort þeir vilji gera þetta mál að kosningamáli í vor.

„Í stað þess að láta stjórnmálaflokkana loka málinu á landsfundum er komin upp sú staða að kjósendur eiga þennan kost ef þeir vilja,“ segir Þorsteinn en bendir á að fjölmörg önnur mál hafi vissulega áhrif á kjósendur og ekki einsýnt að kosningarnar snúist um þessa spurningu.

Guðbjartur Hannesson, velferðarráðherra.
Guðbjartur Hannesson, velferðarráðherra. mbl.is/Ómar Óskarsson
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert