Einfalda á bótakerfið

Öryrkjar við Alþingishúsið.
Öryrkjar við Alþingishúsið. mbl.is/Ómar

Verði frumvarp um lífeyrisréttindi almannatrygginga og félagslegan stuðning lögfest í núverandi mynd er áætlað að útgjöld ríkissjóðs vegna bóta til ellilífeyrisþega mundu aukast strax á árunum 2013–2014 um 2–3 milljarða.kr.
Þegar ákvæði frumvarpsins væru að fullu komin til framkvæmda frá og með árinu 2017 er áætlað að árleg útgjaldaaukning muni nema 9–10 milljörðum.kr. umfram áætlaða útgjaldaaukningu í núverandi kerfi.

Frumvarpið var birt á vef Alþingis í kvöld. Markmið þess er að einfalda núverandi lagaumhverfi um almannatryggingar með því að sameina ákvæði um lífeyrisréttindi og félagslega aðstoð í ein ný heildarlög.

Meginbreytingarnar snúa að því að einfalda bótakerfi ellilífeyrisþega með því að fækka bótaflokkum og sameina, draga úr tekjutengingu og afnema öll frítekjumörk en þó með því móti að greiðslur til velflestra lífeyrisþega hækka.

Í samantekt segir að fyrir liggi að ekki hafi verið gert ráð fyrir viðlíka aukningu opinberra útgjalda sem leiði af samþykkt frumvarpsins, hvorki í fjárlögum yfirstandandi árs né í langtíma-áætlun ríkisstjórnarinnar um jöfnuð í ríkisfjármálum á næstu árum og um að skuldabyrði ríkissjóðs verði lækkuð verulega til lengri tíma litið.

„Engin greining eða áætlanagerð hefur farið fram við undirbúning frumvarpsins á því hvernig megi fjármagna svo mikla útgjaldaaukningu og ekkert samráð var haft um það við fjármála- og efnahagsráðuneytið hvernig slíkar breytingar á almannatryggingakerfinu geti samrýmst ríkisfjármálaáætluninni. Fjárlagaskrifstofa telur vandséð hvernig staðið verði í reynd undir þeirri auknu fjárþörf almannatryggingakerfisins sem leiðir af ákvæðum frumvarpsins eigi jafnframt að framfylgja stefnumörkun ríkisstjórnarinnar í ríkisfjármálum nema stjórnvöld verði reiðubúin til að skerða framlög til annarra málaflokka í sama mæli eða leggja á hærri skatta til tekjuöflunar.“

Frumvarpið

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert