Lögreglan á Selfossi fékk ábendingu um að talsvert magn af landa hafi fundist grafið í jörðu á bæ í Hrunamannahreppi. Holan var um tveir metrar á lengd og einn metri á breidd klædd að innan með krossviði og tyrft yfir. Í holunni voru hátt í 170 lítrar af um 40% landa.
Við rannsókn kom í ljós að landinn var í eigu manns sem var handtekinn fyrir í janúar síðastliðinn fyrir brugg og landaframleiðslu. Þá var haldlagt álíka magn af landa og nú var gert. Maðurinn hefur verið yfirheyrður og viðurkenndi hann að hafa framleitt landann á síðasta ári og komið honum fyrir í holunni.