Girðing Litla-Hrauns þekkt smyglleið

Ungur maður var handtekinn um helgina eftir að hann kastaði meintum fíkniefnum yfir girðingu Litla-Hrauns. Atvikið átti sér stað á meðan fangar voru í útivist. Að sögn Páls Winkel fangelsismálastjóra er þessi leið reglulega notuð til að smygla efnum inn í fangelsið.

Eins og staðan er í dag er leiðin möguleg en hann segir það einna helst vera vegna staðsetningar girðingarinnar. Með tilkomu nýs fangelsis verði þetta vandamál vonandi úr sögunni. „Við viljum tryggja að öryggisgirðingin verði það langt frá húsnæðinu og útivistarsvæði að þetta verði ómögulegt, eða illmögulegt í það minnsta,“ segir Páll. Von er á nýjum girðingum í kringum Litla-Hraun og segir Páll að þær verði illkleifar. Hann tekur þó fram að það skipti ekki máli hvernig girðingarnar eru, það verði að vera ákveðin fjarlægð frá ystu girðingu og útivistarsvæði svo hægt sé að koma í veg fyrir smygl af þessu tagi.

Páll segir að fangaverðir verði oftast varir þessi atvik og vel sé fylgst með umferð í kringum fangelsið. Einnig fara fangaverðir vel yfir svæðið áður en útivist hefst og kanna hvort þar sé eitthvað sem ekki á að vera. Páll segir að starfsmenn fangelsisins fái einnig af og til ábendingar um mál af þessu tagi en atvikið um helgina sást í öryggismyndavélum fangelsisins.

Girðingin á Litla-Hrauni.
Girðingin á Litla-Hrauni. mbl.is/Ómar Óskarsson
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert