Greiðsluþátttöku lyfja breytt í maí

mbl.is/Sverrir Vilhelmsson

Breytingar á greiðsluþátttökukerfi hins opinbera vegna lyfja taka gildi 4. maí næstkomandi. Meginmarkmiðið með breytingunum er að auka jöfnuð milli einstaklinga óháð sjúkdómum og draga úr útgjöldum þeirra sem mest þurfa á lyfjum að halda. Flogaveikir hafa áhyggjur af þessum breytingum.

Breytingar á greiðsluþátttöku lyfja byggja á lagabreytingu sem gerð var á síðasta ári. Samkvæmt upplýsingum frá velferðarráðuneytinu einkennir núgildandi kerfi að kostnaður þeirra sem þurfa á mörgum og dýrum lyfjum að halda, eða nota lyf að staðaldri, getur orðið mjög hár vegna þess að ekki er um neitt hámark á lyfjakostnaði einstaklinga að ræða. Þá er greiðsluþátttaka mismikil eftir lyfjaflokkum sem skapar mismunun milli einstaklinga.

Markmiðið með nýja kerfinu er að auka jafnræði einstaklinga við kaup á lyfjum. Kerfið verður einfaldara og þeir sem mest þurfa á lyfjum að halda munu greiða minna en áður. Kerfið byggir á þrepaskiptri greiðsluþátttöku þar sem hver einstaklingur greiðir hlutfallslega minna eftir því sem lyfjakostnaður hans eykst innan tólf mánaða tímabils.

Brynhildur Arthúrsdóttir, formaður LAUF, Félag flogaveikra, segist hafa áhyggjur af áhrifum þessar breytingar á þá sem þurfa að taka lyf við flogaveiki. Þessi lyf, sem eru frekar dýr, hafa verið mikið niðurgreidd og hún segist óttast að lyfjakostnaður flogaveikra eigi eftir að aukast með boðuðum breytingum á greiðsluþátttöku.

Margrét Erlendsdóttir, deildarstjóri í velferðarráðuneytinu, segir að eitt af því sem oft hafi verið gagnrýnt í núgildandi greiðsluþátttökukerfi sé að það mismunar sjúklingum eftir sjúkdómum þar sem tiltekin lyf við ákveðnum sjúkdómum hafa verið niðurgreidd að fullu meðan önnur mikilvæg lyf við öðrum sjúkdómum gera ráð fyrir kostnaðarhlutdeild sjúklingsins. Hún bendir á að iðulega þurfi fólk á fleiri lyfjum að halda vegna sjúkdóms en þau tilteknu lyf sem hafa verið niðurgreidd að fullu. Það sé því ekki svo að fólk með t.d. flogaveiki eða sykursýki beri engan lyfjakostnað í núgildandi kerfi.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert