Mesta aukning í sjö ár

Umferðin hefur nú aukist í öllum landssvæðum bæði í janúar …
Umferðin hefur nú aukist í öllum landssvæðum bæði í janúar og febrúar milli ára. Það hefur ekki gerst síðan árið 2006 mbl.is/Ómar Óskarsson

Umferðin í febrúar, á 16 völdum talningarstöðum á hringveginum, jókst um 6,3 prósent frá því í febrúar í fyrra. Þetta er mesta aukning umferðar milli febrúarmánaða síðan árið 2006.

Umferðin hefur aukist í öllum landssvæðum í janúar og í febrúar og það hefur heldur ekki gerst síðan árið 2006. Frá áramótum hefur umferðin aukist um 8,9 prósent sem er mikil aukning, sérstaklega í ljósi þróunarinnar undanfarin misseri. Hugsanlegt er að hér ráði tíðarfarið einhverju en greiðfært hefur verið að miklu leyti á þessu tímabili, samkvæmt upplýsingum frá Vegagerðinni.

Í febrúar árið 2006 jókst umferðin um 9,6% milli sömu mánaða milli ára og svipuð aukning og átti sér stað árið 2007.

Aukning mælist í öllum landshlutum og mest eykst umferðin um Suðurland eða 10,1% og minnst um Austurland eða um 0,6%.

Umferðin hefur nú aukist í öllum landssvæðum bæði í janúar og febrúar milli ára. Það hefur ekki gerst síðan árið 2006, þegar fyrst var farið að bera þessar tölur saman.

Samtals frá áramótum hefur umferðin nú aukist um 8,9% milli ára. Þetta verður að teljast gríðarleg aukning þótt umferðarmagnið sem slík eigi nokkuð í land með að ná fyrra magni, segir á vef Vegagerðarinnar.

T.d. var umferðin í janúar svipuð og árið 2006 og 2011 en í febrúar er umferðin nokkru meiri miðað við árstíma þ.e.a.s. einungis árin 2007, 2008 og 2009 hafa mælst hærri á þessum tíma.

Umferðin hefur aukist mest á Suðurlandi frá áramótum eða um 15,6% og minnst um Norðurland eða um 2,4%.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert