Formenn stjórnmálaflokkanna á þingi komu saman til fundar eftir hádegið í dag til að ræða framhald stjórnarskrármálsins. Fundurinn var boðaður að frumkvæði Árna Páls Árnasonar, formanns Samfylkingarinnar.
Árni Páll segir að tilgangur fundarins sé að fara yfir samningsvilja flokkanna til að ljúka stjórnarskrármálinu. Rætt er um að áfangaskipta málinu, en Árni Páll segist leggja áherslu á ákvæði um þjóðareign á náttúruauðlindum og þjóðaratkvæði. „Þetta eru allt atriði sem ætti að vera hægt að ná víðtækri samstöðu um,“ segir Árni Páll.
„Hvort sem menn eru að reyna að áfangaskipta því eða ekki þá eru þeir runnir út á tíma með þetta mál,“ segir Illugi Gunnarsson, þingflokksformaður Sjálfstæðisflokksins, í Morgunblaðinu í dag. Hann bendir á að enn sem komið er hafi sjálfstæðismenn ekki séð neitt um áfangaskiptingu málsins og þeir muni því bíða og sjá til.
Fundinn í dag situr Birgitta Jónsdóttir fyrir hönd Hreyfingarinnar. Þór Saari hefur ekki viljað taka þátt í samningaviðræðum um þetta mál, en hann áformar að leggja fram vantraust á ríkisstjórnina á morgun.