Halldór segir sig úr Sjálfstæðisflokknum

Halldór Gunnarsson á landsfundi Sjálfstæðisflokksins.
Halldór Gunnarsson á landsfundi Sjálfstæðisflokksins. mbl.is/Ómar Óskarsson

Halldór Gunnarsson í Holti, sem hefur verið formaður fulltrúaráðs sjálfstæðisfélaganna í Rangárvallasýslu, tilkynnti á stjórnarfundi fulltrúaráðsins í gær að hann segði af sér öllum trúnaðarstörfum fyrir flokkinn og jafnframt úr Sjálfstæðisflokknum.

Halldór bauð sig fram til formennsku í flokknum á síðasta landsfundi.

„Helstu ástæður tel ég vera, að ég hef ekki náð ásættanlegum árangri um að ná fram skýrri stefnumörkun flokksins um hvernig eigi að koma til móts við fólk, sem hefur misst allt sitt eftir hrun, og breyta verðtryggingunni, sem hirðir alla eignamyndun fólks eftir hrun, sem hefur tekið verðtryggð lán og er enn að, - fjórtán milljarðar í síðasta mánuði,“ skrifar Halldór í fréttatilkynningu.

„Sjálfstæðisflokkurinn, sem ég ungur hreifst af, er ekki lengur flokkur samhygðar, réttlætis, jafnræðis og frelsis á jafnréttisgrundvelli.

Hann er orðinn tæki auðmanna og þeirra, sem þeir velja til þjónustu, - í þágu auðvaldsins.

Það er því með eftirsjá og hryggð, að ég kveð flokkinn, vegna þess fólks, sem ég hef átt samleið með lengi. Þau hafa verið misnotuð til varðstöðu um hagsmuni auðs og valds í landinu, eins og ég fram að þessu, síðustu ár. Ég kveð því minn gamla flokk með hryggð, sem er orðinn annar flokkur.

„Gjör rétt, þol ei órétt“ eru orð sem hljóma enn fyrir eyrum mér jafn skýrt og þegar ég heyrði þau fyrst fyrir um 50 árum og gekk í Sjálfstæðisflokkinn. Þau eru enn í gildi hjá mér. Því verður áfram barist fyrir góðum málstað í þágu heimila, bænda og minni fyrirtækja,“ skrifar Halldór.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert