Sigríður Dögg Auðunsdóttir hefur verið ráðin ritstjóri Fréttatímans við hlið Jónasar Haraldssonar. Mikael Torfason hefur látið af störfum. Hann hóf störf sem ritstjóri í ágúst í fyrra.
Jónas tók við sem ritstjóri Fréttatímans í apríl fyrra er Jón Kaldal lét af störfum sem ritstjóri.
Sigríður Dögg hefur starfað í fjölmiðlum frá árinu 1999 þegar hún hóf störf á Morgunblaðinu. Hún var fréttaritari blaðsins í London um skeið og vann við fjölmiðla þar í landi fram til ársins 2004 þegar hún hóf störf á Fréttablaðinu.
Hún stofnaði eigið vikublað, Krónikuna, árið 2007, sem var yfirtekið af útgáfufélagi DV síðar það ár og var hún aðstoðarritstjóri DV fram til ársins 2008, samkvæmt fréttatilkynningu en hún hefur unnið sem blaðamaður hjá Fréttatímanum undanfarin misseri.
Í ágúst í fyrra tók Valdimar Birgisson, sem áður var auglýsingastjóri Fréttatímans, við sem framkvæmdastjóri blaðsins af Teiti Jónassyni.
Teitur er nú útgefandi blaðsins og útgáfustjóri.