Steinunn Stefánsdóttir aðstoðarritstjóri Fréttablaðsins er hætt störfum á blaðinu. Í kveðjubréfi til starfsfólks segir hún að það sé vegna breyttra aðstæðna á blaðinu, en sem kunnugt er var Mikael Torfason ráðinn ritstjóri Fréttablaðsins á dögunum og sinnir hann því starfi ásamt Ólafi Stephensen.
Í bréfi Steinunnar til starfsfólks segir hún að starfslokin séu samkomulag milli hennar og Ara Edwald, forstjóra 365 miðla. Dagurinn í dag var hennar síðasti á blaðinu. „Framundan er óvissa en alveg áreiðanlega eitthvað sem verður bæði gott og gaman,“ segir Steinunn og að hún kveðji með trega.