Fjörutíu þúsund erlendir ferðamenn fóru frá landinu í febrúar síðastliðnum samkvæmt talningu Ferðamálastofu. Um er að ræða töluverða aukningu frá því í fyrra en þá fóru 12 þúsund manns frá landinu í þessum mánuði.
Frá einstökum þjóðlöndum voru flestir ferðamenn í febrúar frá Bretlandi eða tæp fjörutíu prósent. Ferðamenn frá Bandaríkjunum (13,4%), Noregi (8,0%), Þýskalandi (5,7%), Frakklandi (4,2%) og Danmörku (4,0%) fylgdu þar á eftir. Samtals voru þessar sex þjóðir tæplega þrír fjórðu ferðamanna í febrúar.
Þegar litið er til einstakra markaðssvæða má sjá 56,0% aukningu frá Mið- og Suður-Evrópu, 51,8% aukningu frá Bretlandi, 37,7% frá Norður-Ameríku, 16,6% frá Norðurlöndunum og 45,2% frá löndum sem eru flokkuð undir „annað“.
Það sem af er ári hafa 73.269 erlendir ferðamenn farið frá landinu eða 19 þúsund fleiri en á sama tímabili í fyrra. Um er að ræða 35,5% aukningu milli ára. Veruleg aukning hefur orðið frá flestum mörkuðum; Bretum hefur fjölgað um 48,8%, ferðamönnum frá Mið- og S-Evrópu um 40,2%, N-Ameríkönum um 32,6% og ferðamönnum frá öðrum mörkuðum um 38,4%. Norðurlandabúum hefur hins vegar fjölgað minna eða um 8,3%.
Tæplega 21 þúsund Íslendingar fóru utan í febrúar síðastliðnum, 400 færri en í febrúar árið 2012. Frá áramótum hafa 44.089 Íslendingar farið utan, 1,2% færri en árið áður en þá fóru 44.629 utan.