Árni Páll Árnason er nú búinn að mæla fyrir frumvarpi til breytinga á stjórnskipunarlögum. Tillagan er þess efnis að 79. grein stjórnarskrár verði breytt til bráðabirgða til 30. apríl 2017 þannig að hægt yrði að breyta stjórnarskránni ef hið minnsta 3/5 hlutar Alþingis samþykki að breyta henni og hið minnsta 3/5 hluti þeirra sem taka þátt í þjóðaratkvæðagreiðslu sex til níu mánuðum eftir afgreiðslu Alþingis.
„Er þetta nýr ríkisstjórnarmeirihluti á Alþingi?“ spurði Pétur H Blöndal, þingmaður Sjálfstæðisflokksins, Árna Pál Árnason í andsvari en formenn Samfylkingar, Bjartrar framtíðar og Vinstri grænna standa allir saman að tillögunni þar sem Árni Páll er 1. flutningsmaður.
Árni Páll sagði að formönnum annarra flokka hefði verið boðið að standa að málinu, en aðrir hefðu ekki viljað það.
Árni Páll sagði líka að það væru kostir við núverandi fyrirkomulag í stjórnarskrá um hvernig breyta ætti henni. Þess vegna legðu þau ekki til að breyta því ákvæði, heldur einungis að setja ákvæði til bráðabirgða.