Framkvæmdir hefjast við fyrsta Stracta-hótelið í vor

Rangárþing ytra hefur úthlutað fyrirtækinu lóð á þjónustusvæði á Hellu, …
Rangárþing ytra hefur úthlutað fyrirtækinu lóð á þjónustusvæði á Hellu, við svæði hestamanna á Gaddstaðaflötum. mbl.is

Stracta Construction ehf. sem undirbýr byggingu hótela víða um land vinnur með nokkrur sveitarfélögum að skipulagsmálum og undirbúningi lóða. Lengst er málið komið á Hellu og stefnt að fyrstu skóflustungunni þar á vormánuðum.

Stracta á vinnubúðir sem notaðar voru við byggingu álvers Fjarðaáls í Reyðarfirði og þarf að fjarlægja þær. Hugmyndin er að nota efnið við byggingu allt að tíu hóltela víðsvegar um landið. Stracta kynnti hugmyndir sínar fyrir mörgum sveitarstjórnum og óskaði eftir viðræðum um hentugar lóðir.

Rangárþing ytra hefur úthlutað fyrirtækinu lóð á þjónustusvæði á Hellu, við svæði hestamanna á Gaddstaðaflötum. Drífa Hjartardóttir sveitarstjóri segir að sveitarfélagið þurfi að leggja veg, fráveitu og vatn. Það verði gert þegar fer að vora en hún tekur fram að fyrirtækið sé að vinna í sínum málum jafnhliða.

Unnið í markaðsmálum

„Aðalmálið er að fylla þetta af fólki. Við munum markaðssetja þessi svæði á erlendri grundu,“ segir Hreiðar Hermannsson, framkvæmdastjóri Stracta Construction. Hann segir að veturinn hafi verið notaður til að undirbúa rekstur og sölustarfsemi væntanlegrar hótelkeðju.

Segir Hreiðar að litið sé til allra markaða, austan hafs og vestan. Sjálfur þekkir hann vel til í Noregi og segir að þar sé mikill áhugi á Íslandi.

Hvert hótel á að vera með um 100 herbergjum og þau verða opin allt árið. Þau verða síðan útfærð á mismunandi hátt, eftir þeim lóðum sem fást.

Undirbúningur annarra hótela er mislangt á veg kominn og víðast unnið að skipulagsmálum. Fyrirtækið fær lóð sunnan við Húsavík, við golfvöll bæjarbúa. Bergur Elías Ágústsson bæjarstjóri segir unnið að skipulagsmálum. Telur hann staðsetninguna góða fyrir hótel. „Þetta skiptir okkur verulegu máli. Það koma hingað svo margir ferðamenn á sumrin að stundum er erfitt að fá gistingu. Svo vona ég að þetta hjálpi okkur við að taka við þeim stóru verkefnum í orkufrekum iðnaði sem við berjumst fyrir,“ segir Bergur.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert