Íslenskur brotahópur í lykilhlutverki

„Þetta er mjög óvenjuleg staða,“ segir Karl Steinar Valsson, yfirmaður fíkniefnadeildar lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu, um að 10 Íslendingar sitji nú í gæsluvarðhaldi í Danmörku vegna þriggja fíkniefnamála. „Við teljum að Íslendingar hafi gegnt þarna lykilhlutverki í þessum málum,“ segir hann. Málin séu umfangsmikil og tengist öll.

Flestir eru búnir að vera í haldi dönsku lögreglunnar frá því sl. haust. Karl Steinar á von á því að fljótlega verði gefin út ákæra á hendur mönnunum og að málin verði líklega tekin fyrir hjá dönskum dómstólum í sumar. Hann tekur jafnframt fram að rannsókn málanna sé á forræði lögreglunnar í Kaupmannahöfn.

Mikið magn amfetamíns

Tvö fyrstu málin komu upp sl. haust.  Í öðru þeirra hafði lögreglan í Kaupmannhöfn lagt hald á 27 kíló af amfetamíni í aðgerðum sínum og handtekið danskan karlmann. Talið er að Íslendingarnir tengist því máli. Í framhaldinu var lagt hald á 34 kíló af amfetamíni í sameiginlegum aðgerðum lögreglunnar á Íslandi, í Danmörku, Noregi og Svíþjóð, en embættin nutu einnig aðstoðar frá Europol.

Hinn 20. febrúar greindi lögreglan á höfuðborgarsvæðinu svo frá því að tveir Íslendingar til viðbótar hefðu verið úrskurðaðir í gæsluvarðhald í Kaupmannahöfn, en mennirnir eru grunaðir um aðild að innflutningi á 5,5 kg af amfetamíni til Íslands. Lagt var hald á fíkniefnin skömmu áður.

Samtals eru því 10 einstaklingar sem sæta nú gæsluvarðhaldi í Danmörku vegna umfangsmikilla fíkniefnamála að sögn Karls Steinars. „Þetta er mjög óvenjuleg staða,“ segir hann um fjöldann.

Efnin metin á mörg hundruð millljónir kr.

Þá segir hann að með aðgerðum sínum hafi lögreglunni tekist að stöðva starfsemi íslensks brotahóps sem hafi verið mjög virkur í Evrópu. „Þarna hafa Íslendingar verið að vinna á Evrópumarkaði með fókusinn á Norðurlöndin og þar á meðal Ísland. Það er það sem við vorum að stöðva,“ segir Karl Steinar.

Varðandi fíkniefnin segir Karl Steinar að aðallega sé um amfetamín að ræða. „Þetta er mikið af efnum. Þetta eru verðmæti upp á hundruð milljóna [króna].“

Karl Steinar bætir við að mennirnir sem eru nú í haldi hafi leitt þessa brotastarfsemi, þ.e. séu í efstu þrepunum yfir stjórnendur. Þeir hafi verið teknir með mjög sterk fíkniefni sem hægt sé að drýgja verulega, en í þeirra höndum séu 50 kíló af hreinu efni í raun 100 kíló, eða jafnvel meira, þegar þau séu komin í sölu. Til einföldunar megi tvöfalda, eða jafnvel þrefalda, upphaflega magnið.

Tveir þegar hlotið dóm

Karl Steinar bendir á að tveir Íslendingar sem voru handteknir á á Kastrup-flugvelli með fimm kíló af mdma-töflum snemma árs í fyrra tengist umræddum brotahópi. Mennirnir voru í kjölfarið dæmdir í fimm og átta ára fangelsi vegna aðildar sinnar að smyglinu.

Aðspurður segir Karl Steinar að lögreglan sé búin að ná utan um málin og á hann ekki von á því að fleiri verði handteknir í tengslum við rannsóknina.

„Við erum ekki farin að tjá okkur neitt um það,“ segir Karl Steinar, þegar hann er spurður hvort lögreglan viti um uppruna efnanna. Það muni ekki koma fram fyrr en lögreglan leggur fram sín gögn fyrir dómi.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert