Búnaðarþing samþykkti í dag ályktun þar sem ítrekuð er andstaða Bændasamtaka Íslands við inngöngu Íslands í Evrópusambandið. Þingið telur að hagsmunum Íslands sé betur borgið utan ESB. Búnaðarþing geldur varhug við áhrifum af innstreymi fjármagns frá Evrópusambandinu sem ætlað er að hafa áhrif á viðhorf til aðildar.
Í ályktuninni er lýst stuðningi við starf Bændasamtakanna og fulltrúa þeirra í samningahópum í ESB-málum. Þingið áréttar enn varnarlínur Bændasamtakanna og mikilvægi þess að þær verði áfram grundvallarsjónarmið í gerð samningsafstöðu Íslands í aðildarviðræðunum.
„Ljóst er orðið að Ísland verður að undirgangast sáttmála ESB og engar varanlegar undanþágur eru í boði, svokallaðar samningaviðræður eru einungis aðlögun að regluverki ESB,“ segir í ályktuninni.