Framsóknarmenn hafa lagt fram málamiðlunartillögu um auðlindaákvæði í stjórnarskrá. Flokkurinn vill að ákvæði um auðlindir í þjóðareign verði bætt við núgildandi stjórnarskrá og að formenn flokka undirriti sameiginlega yfirlýsingu um framhald stjórnarskrármálsins.
„Þingflokkur framsóknarmanna telur að tími til heildarbreytinga á stjórnarskrá sé fyrir löngu útrunninn á yfirstandandi þingi. Þingflokkurinn leggur því til að lögð verði áhersla á að ná sátt um að mikilvægt ákvæði um auðlindir í þjóðareign verði bætt í núgildandi stjórnarskrá og að flokkarnir einbeiti sér eingöngu að því að klára það ákvæði á næstu dögum,“ segir í yfirlýsingu sem flokkurinn sendi frá sér í dag.
Þingflokkur framsóknarmanna leggur til að allir flokkar á Alþingi sameinist um að ákvæði um þjóðareign á auðlindum verði bætt við núgildandi stjórnarskrá.
Þar sem tími til afgreiðslu málsins er skammur leggur þingflokkurinn til, að ráði sérfræðinga, að auðlindaákvæðið byggist á niðurstöðu auðlindanefndar sem kosin var af Alþingi og skilaði áliti árið 2000. Lagt er til að við það verði bætt ákvæði um að óheimilt sé að framselja ríkisvald vegna auðlinda til alþjóðlegra stofnana. „Með því að nýta ákvæði, sem þegar hefur náðst víðtæk samstaða um, má sætta sjónarmið og greiða fyrir skjótri afgreiðslu málsins.“
Lagt er til að ákvæðið verði því svohljóðandi: „Náttúruauðlindir og landsréttindi sem ekki eru háð einkaeignarrétti eru þjóðareign eftir því sem nánar er ákveðið í lögum. Handhafar löggjafar- og framkvæmdarvalds fara með forsjá, vörslu og ráðstöfunarrétt þessara auðlinda og réttinda í umboði þjóðarinnar. Óheimilt er að framselja ríkisvald vegna slíkra auðlinda til alþjóðlegra stofnana.
Náttúruauðlindir og landsréttindi í þjóðareign má ekki selja eða láta varanlega af hendi til einstaklinga eða lögaðila. Þó má veita þeim heimild til afnota eða hagnýtingar á þessum auðlindum og réttindum gegn gjaldi, að því tilskildu að hún sé tímabundin eða henni megi breyta með hæfilegum fyrirvara eftir því sem nánar er ákveðið í lögum. Slík heimild nýtur verndar sem óbein eignarréttindi.
Náttúruauðlindir og landsréttindi í þjóðareign ber að nýta á sem hagkvæmastan hátt og á grundvelli sjálfbærrar þróunar og skal arði af þeim varið til þess að vernda auðlindirnar, rannsaka þær og viðhalda þeim, svo og til hagsældar fyrir þjóðina að öðru leyti.“
Þingflokkur framsóknarmanna leggur til að formenn allra flokka á Alþingi gefi út sameiginlega yfirlýsingu sem kveði á um framhald vinnu við endurskoðun stjórnarskrárinnar á næsta kjörtímabili. Í fréttatilkynningunni segir að af hálfu þingflokks framsóknarmanna sé skýr vilji til að halda vinnunni áfram. Minnt er á ályktun nýliðins flokksþings framsóknarmanna þar sem segir: „Framsóknarflokkurinn mun beita sér fyrir því að ljúka endurskoðun stjórnarskrárinnar á komandi kjörtímabili. Við þá vinnu verði höfð hliðsjón af fyrirliggjandi gögnum.“
Í yfirlýsingunni segir að þingflokkur framsóknarmanna styðji ekki tillögur að breytingum á breytingaákvæði núgildandi stjórnarskrár.
„Þingflokkurinn hefur lagt áherslu á að sátt ríki um þær breytingar sem gerðar eru á stjórnarskránni. Núgildandi breytingaákvæði hefur á liðnum árum verið mikilvægur liður í að skapa þrýsting á stjórnmálamenn um að ná samstöðu og sátt um breytingar á stjórnarskrá.
Sú vissa að tvö Alþingi þurfi til að samþykkja samhljóða breytingar á stjórnarskrá minnkar líkur á að breytingar á grundvallarlögum ríkisins séu keyrðar í gegn um Alþingi í ágreiningi milli fylkinga, þar sem alþingismenn og þingflokkar þurfa ætíð að taka tillit til mögulega skiptra skoðana á næsta þingi. Við núverandi aðstæður telur þingflokkur framsóknarmanna því eðlilegt að ákvæði um breytingar á stjórnarskrá sé aðeins breytt eftir að sátt hefur náðst um endurskoðun stjórnarskrárinnar að öðru leyti.“