Næstu klukkustundirnar verður lítið lát á veðurofsanum og hríðinni á landinu í heild. Ekki eru horfur á að neitt lægi að sögn veðurfræðings Vegagerðarinnar.
Vestanlands verða áfram austan og austnorðaustan 20-25 m/s á fjallvegum og eins allra syðst. Heldur dregur þó úr snjókomu sunnan- og suðvestanlands en áfram skafrenningur og lítið skyggni. Náð hefur að hlána sunnanlands frá Eyjafjöllum og vestur fyrir Hellu og líklega blotar einnig með ströndinni við Eyrarbakka og vestur í Grindavík nú um miðjan daginn.
Vonskuveður er á Suðurlandi og víðast hvar ekkert ferðaveður. Reynisfjall er ófært.
Vegur er lokaður á Hellisheiði og í Þrengslum. Suðurstrandarvegur er ófær. Vegi hefur verið lokað á Kjalarnesi og Hvalfjarðargöngunum til suðurs. Á höfuðborgarsvæðinu er víðast hvar mjög blint og fólk beðið að vera ekki á ferðinni nema það sé bráðnauðsynlegt. Stórhríð og flughálka er á Reykjanesbraut og á Suðurnesjum.
Vonskuveður er víða á Vesturlandi. Stórhríð er víða á Snæfellsnesi. Fróðárheiði er ófær og þungfært er milli Búða og Hellna en þæfingur milli Ólafsvíkur og Hellissands. Þungfært er einnig á Svínadal og stórhríð á Skarðsströnd.
Á Vestfjörðum er ekkert ferðaveður, fjallvegir eru flestir ófærir og einnig er víða slæm færð í byggð.
Mjög slæmt veður er einnig á Norðurlandi. Stórhríð í Húnavatnssýslum og á Þverárfjalli og eins á Tröllaskaga. Ófært er á Siglufjarðarvegi, í Héðinsfirði og í Ólafsfjarðarmúla. Öxnadalsheiði er ófær, ófært er til Grenivíkur og á Víkurskarði. Stórhríð er í Ljósavatnsskarði og á Tjörnesi og óveður áfram þaðan austur á Raufarhöfn. Ófært er á Hófaskarði.
Það er ófært á Möðrudalsöræfum og Fjarðarheiði en þungfært á Vopnafjarðarheiði og Vatnsskarði eystra. Stórhríð er á Jökuldal. Hólmaháls er lokaður vegna umferðarslyss. Þæfingsfærð er á Oddsskarði. Versnandi veður er nú líka með austurströndinni.
Óveður er í Öræfum og alls ekki ferðaveður, grjótfok og mikið um rúðubrot á bílum sem þar hafa verið á ferð.
Vegagerðin og Náttúrustofa Austurlands biðja vegfarendur að vera vakandi fyrir hugsanlegri umferð hreindýra við vegi á Austur- og Suðausturlandi.
Sjá staðsetningu hreindýra hér.