Óveður er í Öræfum og er þar ekkert ferðaveður. Samkvæmt upplýsingum frá Vegagerðinni hefur vindur ekki farið niður fyrir 40 metrar á sekúndu þar síðan í nótt: Mikið grjótfok er á þessum slóðum og mikið um rúðubrot í bifreiðum.
Spáð er vonskuveðri, stormi með hríð, skafrenningi og slæmu skyggni um mestallt suðvestan- og vestanvert landið og ekki útlit fyrir að það taki að skána fyrr en upp úr miðjum degi, jafnvel ekki fyrr en síðdegis. Dregur þó úr snjókomunni suðvestanlands, um hádegi, en áfram verður hvasst, skafrenningur og kóf fram á kvöld.
Vonskuveður er á Suðurlandi og víðast hvar ekki ferðaveður. Reynisfjall er ófært.
Hellisheiði og Þrengsli eru lokuð og Suðurstrandarvegur er ófær. Vegurinn um Kjalarnes er lokaður og Hvalfjarðargöng til suðurs.
Það er hálka og mikil ofankoma á höfuðborgarsvæðinu, víðast hvar er mjög blint og fólk beðið að vera ekki á ferðinni nema það sé bráðnauðsynlegt. Stórhríð og flughálka er á Reykjanesbraut og á Suðurnesjum.
Vonskuveður er víða á Vesturlandi. Stórhríð er við Akrafjall, inni í Hvalfirði og við Hafnarfjall. Stórhríð er víða á Snæfellsnesi. Fróðárheiðin er ófær og þungfært er milli Búða og Hellna. Þungfært er einnig á Svínadal og stórhríð á Skarðsströnd.
Á Vestfjörðum er ekkert ferðaveður, fjallvegir eru flestir ófærir og víða þungfært í byggð.
Mjög slæmt veður er einnig á Norðurlandi. Stórhríð er norðan Blönduóss og á Þverárfjalli og eins á Tröllaskaga. Ófært er á Siglufjarðarvegi, í Héðinsfirði og í Ólafsfjarðarmúla. Öxnadalsheiði er ófær, ófært er til Grenivíkur og á Víkurskarði. Stórhríð er í Ljósavatnsskarði og á Tjörnesi og óveður áfram þaðan austur á Raufarhöfn. Ófært er á Hófaskarði.
Það er ófært á Möðrudalsöræfum og Fjarðarheiði en þungfært á Vopnafjarðarheiði og Vatnsskarði eystra. Stórhríð er á Jökuldal. Sunnan Egilsstaða eru vegir færir en þar er víða snjóþekja eða hálka og einhver ofankoma eða skafrenningur.