Ingvar P. Guðbjörnsson -
„Þetta er sambland af snjónum sem eftir er og ösku sem er að fjúka,“ segir Ingveldur Guðný Sveinsdóttir á Rauðuskriðum í Fljótshlíð. Eins og sjá má á meðfylgjandi myndum er fremur grátt um að litast á bænum í dag. Þar er þó ekki sama ástand og víðar á landinu þar sem ófært er og skafbylur.
Ingveldur segist ekki sjá yfir á bæina undir Eyjafjöllum, sem alla jafna ættu að blasa við henni frá bæjarstæðinu, en Markarfljótið rennur þar á milli. Öskubylur sé með fljótinu þar sem mikið magn gosefna finnist ennþá þótt nokkuð sé síðan eldgosinu lauk í Eyjafjallajökli vorið 2011.
„Við þorðum ekki annað en að setja þá inn í gærkvöldi og okkur dettur ekki til hugar að setja þá út á meðan þetta er svona,“ sagði Ingveldur Guðný um hesta á bænum sem voru hýstir áður en versta veðrið skall á.
Rauðuskriður standa rétt við fjallið Stóra-Dímon þar sem ferðamaður hafði í gær tjaldað. Það má ljóst vera af myndunum að vistin hefur vart verið góð hafi hann haldið því til streitu að gista undir Stóra-Dímon í nótt.