Sorg er í hjarta marga þingmanna yfir afdrifum stjórnarskrármálsins ef marka má umræður á Alþingi í dag. Boðað hefur verið að breytingartillögur verði lagðar fram í dag og var sérstaklega kallað eftir tillögum frá Sjálfstæðisflokknum. Þór Saari mótmælti því að málið fengi ekki meira pláss á dagskrá þingsins.
„Þetta er þyngra en tárum taki og ég lýsi sorg yfir því hvernig þetta mál er statt og andúð á vinnubrögðum Alþingis,“ sagði Ólína Þorvarðardóttir um stjórnarskrárfrumvarpið á Alþingi í dag. Ólína sagðist eiga erfitt með að taka til máls vegna sorgar yfir því hvernig farið hefði verið með málið í þinginu.
Hrikalegt væri að sitja undir andsvörum sjálfstæðismanna í skætingstóni eftir allt það sem á undan væri gengið. „Þessi atburðarás er öll í boði Sjálfstæðisflokksins,“ sagði Ólína.
Valgerður Bjarnadóttir sagðist sömuleiðis hafa sorg í hjarta yfir þróun mála. „Ég segi beint frá hjartanu að ég skil ekki almennilega hvers vegna við náum ekki sátt um einstök atriði. Því miður hefur sjaldan gefist tækifæri til þess því Sjálfstæðisflokkur og Framsóknarflokkur hafa ekki viljað blanda sér í umræðuna.“
Sagðist Valgerður ekki skilja hvers vegna ekki væri hið minnsta hægt að afgreiða mannréttindakafla stjórnarskrárfrumvarpsins þar sem mannréttindi væru þau grunngildi sem byggja þyrfti á. „Eða er það kannski svo að Framsóknarflokkur og Sjálfstæðisflokkur vilja ekki færa mannréttindaákvæði stjórnarskrárinnar til nútímans?“
Ábyrgð forseta Alþingis
Birgitta Jónsdóttir sagðist einnig full sorgar yrðu málalok þau að stjórnarskráin yrði tekin af dagskrá Alþingis að eilífu. Spurði hún hvort hnífurinn stæði þar í kúnni að álit sumra þingmanna væri að ekkert tilefni væri til að breyta mannréttindakafla stjórnarskrárinnar.
„Það er sárt ef við fáum ekki fyrstu heildstæðu stjórnarskrána í gegn hér á þessu þingi vegna þess að hún er svo merkileg. Er það réttlætanlegt að þingið ætli bara að skrúfa fyrir málið? Það er ekki bara Sjálfstæðisflokkurinn sem ber ábyrgð á því heldur líka forseti Alþingis því hún hefur neitað að setja málið í dagskrá trekk í trekk þannig að við getum ekki rætt það í þaula.“
Þá sagðist Þór Saari lýsa fullri ábyrgð á hendur forseta Alþingis á „því ástandi sem getur myndast á Íslandi þegar lítil klíka tekur völdin í eigin hendur og gengur gegn vilja þjóðarinnar“.
Framsóknarflokkurinn lagði í morgun fram málamiðlunartillögu um auðlindaákvæði í stjórnarskrá. Samkvæmt heimildum mbl.is má eiga von á því að fleiri tillögur um meðferð málsins komi fram í dag.