Standa saman að tillögu um stjórnarskrá

Formenn flokkanna ræddu um framgang stjórnarskrármálsins í gær.
Formenn flokkanna ræddu um framgang stjórnarskrármálsins í gær. mbl.is/Golli

Árni Páll Árnason, Katrín Jakobsdóttir og Guðmundur Steingrímsson hafa lagt fram þingsályktun um að kosin verði fimm manna nefnd sem fái það hlutverk að vinna að farsælli niðurstöðu stjórnarskrármálsins á næsta kjörtímabili. Jafnframt hafa þau lagt fram frumvarp um hvernig breyta megi stjórnarskránni.

Í tillögunni segir að Alþingi álykti að mikilvægt sé að leiða til lykta það ferli stjórnskipunarumbóta sem hófst í aðdraganda kosninga 2009 og hélt áfram með þjóðfundi, starfi stjórnlaganefndar og stjórnlagaráðs og tillögu ráðsins til nýrrar stjórnarskrár 2011, ráðgefandi þjóðaratkvæðagreiðslu 2012, þar sem fram kom stuðningur við smíði nýrrar stjórnarskrár, og þinglegri meðferð frumvarps á þeim grunni.

„Alþingi samþykkir að kjósa á yfirstandandi þingi fimm manna stjórnarskrárnefnd sem fái það hlutverk að vinna að farsælli niðurstöðu málsins á næsta kjörtímabili. Vinna nefndarinnar grundvallist á tillögum stjórnlagaráðs og miði að því að útfæra nánar frumvarp það til nýrrar stjórnarskrár sem nú liggur fyrir þinginu. Þá verði jafnframt hafðar til hliðsjónar þær breytingartillögur sem meirihluti stjórnskipunar- og eftirlitsnefndar hefur lagt fram. Nefndin skili stjórnskipunar- og eftirlitsnefnd Alþingis tillögum sínum fyrir 1. október 2013 og stefnt verði að því að heildarendurskoðun stjórnarskrárinnar verði lokið á sjötíu ára afmæli lýðveldisins árið 2014.“

Þremenningarnir lögðu einnig í dag fram frumvarp til breytinga á stjórnarskrá Íslands. Þar segir: „Þrátt fyrir ákvæði 1. mgr. 79. gr. er heimilt, fram til 30. apríl 2017, að breyta stjórnarskránni með eftirfarandi hætti: Samþykki Alþingi frumvarp til laga um breytingu á stjórnarskrá með minnst 3/5 hlutum greiddra atkvæða skal það borið undir atkvæði allra kosningarbærra manna í landinu til samþykktar eða synjunar. Atkvæðagreiðslan skal fara fram í fyrsta lagi sex mánuðum og í síðasta lagi níu mánuðum eftir samþykkt frumvarpsins á Alþingi. Sé frumvarpið samþykkt með 3/5 hlutum greiddra atkvæða í þjóðaratkvæðagreiðslunni skal það staðfest af forseta Íslands innan tveggja vikna og telst þá gild stjórnarskipunarlög. Í heiti frumvarps til stjórnarskipunarlaga á þessum grundvelli skal koma fram tilvísun til ákvæðis þessa.“

Þingflokkur framsóknarmanna sendi í dag frá sér yfirlýsingu þar sem segir að framsóknarmenn séu ekki tilbúnir til að gera breytingar á breytingaákvæði stjórnarskrárinnar. Flokkurinn er hins vegar tilbúinn til að gera breytingar á auðlindaákvæði stjórnarskrárinnar.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert