„Það eru allir að leggjast á eitt“

Sprengjuleitarmenn Landhelgisgæslunnar hafa verið lögreglu og slökkviliði höfuðborgarsvæðisins til aðstoðar í illviðrinu í morgun. Nokkrir aðilar í ferðaþjónustu, sem hafa yfir stórum jeppum að ráða hafa einnig komið til aðstoðar. „Það eru allir að leggjast á eitt við að láta hlutina ganga,“ segir Víðir Reynisson deildarstjóri almannavarnardeildar ríkislögreglustjóra.

„Þessi sveit Landhelgisgæslunnar hefur yfir að ráða tveimur öflugum bílum sem okkur vantaði að fá að nota í morgun og starfsmenn þessarar deildar eru á bílunum. Síðan hafa nokkur ferðaþjónustufyrirtæki, sem eru með stóra jeppa, boðist til að aðstoða okkur í morgun.“

Börnin í góðu yfirlæti í skólunum

„Núna erum við að skoða hvernig og hvenær best væri að foreldrar sæktu börn sín í skólann. Við reiknum með því að senda frá okkur tilkynningu varðandi það innan klukkutíma og erum að fá upplýsingar um snjóruðning og færð í einstökum hverfum. En það yrði ekki gott ef allir foreldrar færu af stað í einu, þá stíflast allt eins og gerðist í morgun.“

Víðir segir að þó að skóladegi flestra grunnskólabarna ljúki á milli klukkan 13 og 14, þá hafi enginn verið sendur heim og börnin fái að vera í góðu yfirlæti í skólunum uns þau verði sótt.

 Þarf að kalla út allan tiltækan mannskap

„Það þarf einfaldlega að kalla út allan tiltækan mannskap. Þeir eru á öflugum bíl og eru nú að aðstoða fólk sem er fast í ófærðinni og við ýmislegt annað sem til fellur,“ segir Stefán Einarsson hjá Landhelgisgæslunni, en starfsmenn séraðgerða- og sprengjuaðgerðasviðs Gæslunnar aðstoða nú lögreglu og slökkvilið höfuðborgarsvæðisins vegna ófærðarinnar.

Stefán segist ekki vita til þess að þessi staða hafi áður komið upp; að sprengjuleitarmenn gangi í þessi störf.

„En fólk þarf bara að hjálpast að og ganga í það sem til fellur,“ segir hann.

Að sögn Stefáns eru fáir á sjó núna, en eitt loðnuveiðiskip liggur nú í vari vestur af Reykjanesi og bíður þess að veðrinu sloti. „Menn hafa almennt vit á að halda sig heima.“

Meðfylgjandi myndskeið tók Kristbjörg Una Guðmundsdóttir í Grafarholti í morgun.

Frá Grafarholtinu í morgun en ófært hefur verið um hverfið …
Frá Grafarholtinu í morgun en ófært hefur verið um hverfið í dag Ljósmynd Kristbjörg Una Guðmundsdóttir
mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert