„Þetta heitir valdarán, eins og margir hafa bent á. Kölluð hlutina réttum nöfnum,“ segir Þorvaldur Gylfason, hagfræðiprófessor sem sat í stjórnlagaráði, og einnig að Alþingi taki sér ekki tak og afgreiði stjórnarskrárfrumvarpið í samræmi við vilja þjóðarinnar muni niðurlæging þingsins hafa alvarlegar afleiðingar.
Þorvaldur skrifar um málið á vefsvæði sitt. Þar spyr hann hvers vegna treysta ætti því þegar Árni Páll Árnason, formaður Samfylkingarinnar, segir að ekki sé meirihluti fyrir málinu á Alþingi. „Hefur forsætisráðherra staðfest það mat hans? Nei.“
Þá spyr hann hvers vegna treysta ætti einhverri leynitalningu atkvæða í þinginu. Nær væri að greiða atkvæði um frumvarpið í þinginu, svo að þjóðin fái að sjá það fyrir opnum tjöldum, hvaða þingmenn „virða þjóðarviljann og hvaða þingmenn stinga þjóðina í bakið?“
Þorvaldur segir að þess vegna reyni þingmenn, sumir hverjir, að koma í veg fyrir atkvæðagreiðslu. „Sannið til: Mörg þeirra myndu ekki þora að greiða atkvæði gegn nýrri stjórnarskrá, ef til þess kæmi, og þess vegna reyna þau að koma í veg fyrir atkvæðagreiðslu í þinginu. Þetta heitir valdarán, eins og margir hafa bent á.“