Nánast engar skapabarmaaðgerðir fyrir 10 árum

Aðgerðum á skapabörmum kvenna hefur fjölgað undanfarinn áratug, að sögn …
Aðgerðum á skapabörmum kvenna hefur fjölgað undanfarinn áratug, að sögn Ebbu. Ásdís Ásgeirsdóttir

„Fegrunaraðgerðir voru einu sinni var bara á færi efnafólks og Hollywood-stjarna. Það hefur heldur betur breyst og ekki til hins betra að mínu mati,” segir Ebba Margrét Magnúsdóttir, fæðingar- og kvensjúkdómalæknir.

Ebba heldur fyrirlestur á morgun á vegum Zontaklúbbs Akureyrar undir yfirskriftinni: Útlitsdýrkun og lýtaaðgerðir. Er of langt gengið?, en hún hefur gagnrýnt þá þróun sem hefur orðið í fjölda fegrunaraðgerða hér á landi og kallar eftir aukinni og opinni umræðu.

„Þegar ég var í mínu sérnámi fyrir 10-15 árum, þá man ég varla því að nokkur einasta kona hafi sýnt skapabarmaaðgerðum áhuga. Það er því full ástæða til að velta því fyrir sér hvers vegna þessar aðgerðir eru skyndilega orðnar eftirsóttar,” segir Ebba.

„Ég held að ein af ástæðunum sé að þetta sé afleiðing klámvæðingarinnar. Eða hvar annars staðar en í klámmyndum ættu konur annars að sjá skapabarma, sem þær bera saman við sína eigin og komast að þeirri niðurstöðu að þeir séu óeðlilegir í útliti? Fullkomlega eðlilegar konur halda skyndilega að þær séu ekki eðlilegar, einhvers staðar sjá þær fyrirmyndirnar.”

Hún segir rakstur á kynfærum líklega eiga stóran hlut að máli varðandi aukna ásókn í skapabarmaaðgerðir. „Það eru engin hár þar sem þau ættu að vera og þá líta kynfærin auðvitað allt öðruvísi út. Annars finnst mér mjög óeðlilegt þegar fertugar konur vilja líta út eins og níu ára á þessu svæði.”

Ebba segir að ekki heppnist allar fegrunaraðgerðir á skapabörmum vel. Ekki sé óalgengt  að konur geri sér miklar væntingar, séu síðan ekki ánægðar með árangurinn og vilji fara aftur í aðgerð. Um sé að ræða afar viðkvæmt og næmt svæði og fari eitthvað úrskeiðis geti það haft margvísleg áhrif fyrir konurnar. „Við erum að fá til okkar konur með sýkingar og blæðingar sem má rekja til svona aðgerða.”

En er þá aldrei grundvöllur fyrir því að framkvæma svona aðgerðir? „Jú. Auðvitað eru til konur sem eru með of síða skapabarma sem valda þeim óþægindum. Ég hef gert nokkrar aðgerðir í slíkum tilvikum. En ég hef líka margoft neitað að gera svona aðgerðir, þar sem ég taldi að eingöngu væri um fegrunaraðgerð að ræða.”

Þurfum að taka upp ábyrga umræðu

Ebba segir að umræða um fegrunaraðgerðir þyrfti að vera meiri hér á landi, nokkur umræða hafi skapast í kjölfar PIP-brjóstapúðamálsins og að ýmsar spurningar hafi vaknað. En betur megi ef duga skuli og ekki síst þurfi að ræða við ungt fólk um líkamsvitund; að vera sátt við líkama sinn. „Það sem við þurfum að leggja áherslu á er að við þurfum ekki öll að vera eins.”

Er fólki ekki frjálst að fara í fegrunaraðgerð, kjósi það svo? „Að sjálfsögðu má fullorðið fólk  alveg fara í fegrunaraðgerðir ef það vill gera það. Ég get til dæmis vel skilið að konur sem eru með mjög lítil eða mjög stór brjóst vilji fara í aðgerð til að breyta því. En við þurfum að taka upp ábyrga umræðu um þessar aðgerðir. Svo er það mín skoðun að það eigi ekki að leyfa mjög ungu fólki að fara í fegrunaraðgerðir, alveg sama hvaða nafni sem þær nefnast.”

Fótósjoppaðar og undir kjörþyngd

Ebba segir bagalegt hversu litlar upplýsingar séu tiltækar um fjölda og tegundir fegrunaraðgerða hér á landi, en slíkar upplýsingar eru trúnaðarmál og ákvörðun einstakra lækna að upplýsa um fjölda og tegundir aðgerða. „Löggjöfin þyrfti að taka á þessu með einhverjum hætti, þannig að við fáum að vita hversu margar aðgerðir er verið að gera og hvernig. Þá hefðum við líka forsendur til að ræða málin.”

En hver gæti verið skýringin á þessari aukningu fegrunaraðgerða af ýmsum toga og þá sérstaklega á meðal kvenna? „Ég held að sjálfsmynd kvenna á 21. öldinni mótist að hluta til af fjölmiðlum þar sem fólk er fótósjoppað. Fyrirmyndir kvenna í dag eru allt aðrar en þær voru fyrir nokkrum árum og það er virkilega umhugsunarvert. Til dæmis eru nánast allar konur sem sjást í auglýsingum og fjölmiðlum í eða undir kjörþyngd. Þetta er uggvænleg þróun, því það er ekki verið að sýna venjulegt fólk. Í þessu sambandi verðum við líka að velta því fyrir okkur hvernig fyrirmyndir við viljum vera sem mæður og fullorðnar konur. Erum við að hlaupa á eftir öllu, eða erum við sáttar við okkur sjálfar eins og við erum?

Frétt mbl.is: Er ekki með klámmyndapíku

Ebba Margrét Magnúsdóttir, fæðinga- og kvensjúkdómalæknir vill opna umræðu um …
Ebba Margrét Magnúsdóttir, fæðinga- og kvensjúkdómalæknir vill opna umræðu um fegrunaraðgerðir. Guðmundur Rúnar Guðmundsson
mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert