„Ég ætla ekki að svíkja þessa þjóð. Ég ætla að reyna að gera allt sem ég get til þess að klára málið á þessu þingi svo það næsta þurfi aðeins að samþykkja það. En ég lýsi hér eftir hugrekki og heiðarleika á Alþingi og að menn standi við það sem þeir lofa.“
Þetta segir Margrét Tryggvadóttir, þingmaður Hreyfingarinnar, á heimasíðu sinni í dag og vísar þar til stjórnarskrármálsins og þeirrar ákvörðunar stjórnarflokkanna að afgreiða ekki í heild á þessu þingi frumvarp að nýrri stjórnarskrá.
„Sjálfstæðisflokkurinn er því ekki að svíkja sína kjósendur sína, þvert á móti, Sjálfstæðisflokkurinn er að efna kosningaloforð sitt og flestir aðrir virðast ætla að aðstoða hann við það. Allir hinir svíkja því kjósendur sína,“ segir hún og vísar þar til stjórnarflokkanna, Samfylkingarinnar og Vinstrihreyfingarinnar - græns framboðs, auk Framsóknarflokksins.
Margrét segir að samkvæmt hausatalningu sinni vilji meirihluti þingmanna standa að málinu en þori því hins vegar ekki.