„Það kannski sýnir metnað, eða metnaðarleysi ríkisstjórnarflokkanna, að við gerð fjárlaga fyrir árið 2011 þá voru settar 11,2 milljónir til þess að greina skuldavanda heimilanna, í fjárlögum ársins 2011. Núna er fjárlaganefnd búin að afgreiða frá sér lokafjárlög 2011. Þar er lagt til að þessi heimild, fjárheimild, verði felld niður vegna þess að það hefur ekki verið þörf fyrir það að nýta hana. Og ráðuneytið gerir engar athugasemdir við það. Akkúrat ekki neinar. Því árið 2012 var þessi heimild ekki heldur nýtt.“
Þetta sagði Ásbjörn Óttarsson, þingmaður Sjálfstæðisflokksins, á Alþingi í dag. Ráðlagði hann stjórnarþingmönnum að rifja upp eigin kosningaloforð í stað þess að vera að velta því fyrir sér hvort stjórnarandstaðan hefði staðið við sín eða ekki. Spurði hann að því hvar skjaldborg heimilanna væri og minnti ennfremur á þann mikla aðstöðumun sem væri á stjórn og stjórnarandstöðu varðandi möguleikana á að koma málum í gegnum þingið. Sum mál stjórnarandstöðunnar hefðu ekki einu sinni fengist rædd í þinginu.
„Það er að segja, þær 11,2 milljónir króna sem voru settar inn á fjárlög 2011 til þess að greina skuldavanda heimilanna hafa ekki verið nýttar, ekki ein einasta króna. Og það þarf auðvitað ekkert að segja meira en þetta um metnað ríkisstjórnarflokkanna til þess að greina skuldavanda heimilanna,“ sagði hann ennfremur.