Talsvert hefur verið rætt um það að undanförnu hvort Íslandi kynnu að standa til boða varanlegar undanþágur frá yfirstjórn Evrópusambandsins ef til inngöngu í sambandið kæmi. Þá einkum og sér í lagi í tengslum við íslenskan sjávarútveg. Þannig kom sú umræða til að mynda töluvert við sögu á Alþingi nýverið þegar þingmenn ræddu um skýrslu Össurar Skarphéðinssonar, utanríkisráðherra, um utanríkis- og alþjóðamál.
Til þessa hefur sú afstaða verið ríkjandi hér á landi að ein helsta forsenda þess að Ísland gæti gengið í Evrópusambandið væri að yfirráðin yfir fiskveiðilögsögunni í kringum landið og auðlindum hennar yrðu áfram í höndum Íslendinga. Með öðrum orðum að fengin yrði varanleg undanþága frá yfirstjórn Evrópusambandsins í sjávarútvegsmálum og þar með sameiginlegri sjávarútvegsstefnu sambandsins sem gerir ráð fyrir slíkri yfirstjórn í samræmi við ákvæði Lissabon-sáttmálans, grunnlöggjafar þess.
Varanlegar undanþágur ekki í boði
Ekkert ríki hefur hins vegar fengið slíka varanlega undanþágu í sjávarútvegsmálum eins og til að mynda kemur fram í riti Stefáns Más Stefánssonar, lagaprófessors og sérfræðings í Evrópurétti, Landbúnaðarlöggjöf Evrópusambandsins og Evrópska efnahagssvæðisins frá 2011. Einungis hafa verið veittar tímabundnar undanþágur. Hins vegar hefur í ákveðnum tilfellum verið boðið upp á sérlausnir í sjávarútvegsmálum sem fela þó ekki í sér undanþágur frá yfirstjórn Evrópusambandsins heldur einungis breytta stjórnsýslu til þess að koma að ákveðnu marki til móts við aðstæður einstakra ríkja innan ramma regluverks sambandsins.
Einnig er til að mynda fjallað um þetta í greininni „Iceland’s Application for European Union Membership“ í tímaritinu Studia Diplomatica árið 2011 eftir fræðimennina Baldur Þórhallsson, Alyson J.K. Bailes og Graham Avery þar sem komist er að þeirri niðurstöðu að mögulegt ætti að vera að semja um sjávarútvegsmálin í viðræðum við Evrópusambandið svo framarlega sem Íslendingar fari ekki fram á það að standa fyrir utan sameiginlega sjávarútvegsstefnu sambandsins. Það er að fá varanlega undanþágu frá yfirstjórn þess.
Fóru fram á að halda yfirráðum sínum
Bæði Noregur og Malta fóru fram á varanlegar undanþágur í sjávarútvegsmálum þegar ríkin sóttu um inngöngu í Evrópusambandið á sínum tíma, en Norðmenn höfnuðu inngöngu árið 1994 á meðan Maltverjar gengu í sambandið um áratug síðar. Meðal annars vildu ríkin tvö halda yfirráðum yfir efnahagslögsögum sínum að hluta eða í heild en því var hins vegar hafnað af Evrópusambandinu ekki síst á þeim forsendum að slíkt færi gegn löggjöf þess. Um þetta er meðal annars fjallað í riti Stefáns Más og Óttars Pálssonar, lögfræðings, Fiskveiðireglur Íslands og Evrópusambandsins. Þróun, samanburður og staða Íslands frá 2003.
Þannig vildu Norðmenn til að mynda halda yfirráðum yfir efnahagslögsögu sinni norðan 62. breiddargráðu og að sambandið viðurkenndi eignarrétt þeirra á hafsvæðunum innan efnahagslögsögu Noregs en því hafnaði Evrópusambandið sem fyrr segir. Norðmönnum stóð aðeins til boða tímabundin undanþága líkt og til að mynda Portúgölum áður. Undanþágan var til fjögurra ára. Maltverjum var hins vegar boðin sérlausn sem felur í sér að einungis lítil fiskiskip, óháð því frá hvaða ríki innan sambandsins þau koma, megi veiða innan 25 mílna lögsögu eyjarinnar.
Verður aðeins farið fram á sérlausnir
Fram hefur komið ítrekað í máli Össurar Skarphéðinssonar, utanríkisráðherra, að ekki verði farið fram á slíkar varanlegar undanþágur frá yfirstjórn Evrópusambandsins í sjávarútvegsmálum af hálfu Íslands í yfirstandandi viðræðum um inngöngu í sambandið. Nú síðast í umræðum á Alþingi um skýrslu hans fyrir skemmstu. Sama sjónarmiði hefur einnig verið lýst af aðalsamningamanni Íslands í viðræðunum, Stefáni Hauki Jóhannessyni. Beðið verði um sérlausnir sem rúmist innan sameiginlegrar sjávarútvegsstefnu Evrópusambandsins og gangi ekki gegn grundvallarreglum sambandsins. Þá hefur Össur tekið undir það sjónarmið að varanlegar undanþágur frá sameiginlegri sjávarútvegsstefnu sambandsins séu ekki í boði. Það kom til að mynda fram í ræðu sem hann flutti á Alþingi 16. júlí 2009 þegar umsóknin um inngöngu í Evrópusambandið var samþykkt.
Ráðherrann hefur hins vegar lagt áherslu á að regla Evrópusambandsins um hlutfallslega stöðugar veiðar tryggi sjávarútvegshagsmuni Íslands. Umrædd regla, sem gengur út á úthlutun aflaheimilda til ríkja á grundvelli sögulegrar veiðireynslu, breytir því hins vegar ekki að yfirstjórn málaflokksins er eftir sem áður hjá stofnunum sambandsins enda fjallar hún ekki um fyrirkomulagið í þeim efnum. Þá hefur framkvæmdastjórn Evrópusambandsins lýst því yfir að reglan tryggi ekki lengur að úthlutaðar aflaheimildir haldist hjá viðkomandi ríkjum, samanber síðustu grænbók framkvæmdastjórnarinnar um sjávarútvegsmál frá 2009, og vísað í reynsluna af framkvæmd reglunnar til þessa í þeim efnum.
„Ekki hægt að fá varanlegar undanþágur“
Varanlegar undanþágur frá sjávarútvegsstefnu Evrópusambandsins hafa þannig ekki verið veittar til þessa og forystumenn sambandsins hafa í samræmi við það ítrekað áréttað að slíkt sé ekki í boði af hálfu þess. Það kom meðal annars skýrt fram í máli Stefans Füle, stækkunarstjóra Evrópusambandsins, á blaðamannafundi í Brussel 27. júlí 2010 þar sem hann sat fyrir svörum ásamt Össuri Skarphéðinssyni. „Það er ekki hægt að fá neinar varanlegar undanþágur frá lögum ESB,“ sagði Füle af því tilefni við fyrirspurn frá spænskum blaðamanni varðandi íslenskan sjávarútveg.
Samantekið er þannig ljóst að ríki sem óska eftir inngöngu í Evrópusambandið geta ekki gert ráð fyrir því að halda yfirráðum sínum yfir eigin sjávarútvegi. Einungis kunna að vera í boði tímabundnar undanþágur í þeim efnum og sérlausnir sem koma ekki í veg fyrir að yfirstjórn málaflokksins færist til stofnana sambandsins. Fyrir liggur hins vegar að íslensk stjórnvöld ætla ekki að fara fram á varanlegar undanþágur í þeim efnum heldur aðeins sérlausnir. Þá er einnig ljóst að engin trygging er fólgin í reglunni um hlutfallslega stöðugar veiðar fyrir því að aflaheimildir á Íslandsmiðum, sem Evrópusambandið úthlutaði til Íslendinga, héldust óbreyttar á grundvelli sögulegrar veiðireynslu.