„Hvar er allt fólkið sem mætti og kaus?“

Birgitta Jónsdóttir, þingmaður Hreyfingarinnar.
Birgitta Jónsdóttir, þingmaður Hreyfingarinnar. mbl.is/Ómar

„Hvar eru þingmennirnir 35 sem samþykkti að setja stjórnarskrána í þjóðaratkvæðagreiðslu? Hvar er hugrekkið og dugurinn til að vera fylgin sér og tryggja að í það minnsta eitt af þeirra megin kosningamálum myndi komast í höfn? Hvar er allt fólkið sem mætti og kaus um nýja stjórnarskrá?“ spyr Birgitta Jónsdóttir, þingmaður Hreyfingarinnar, á Facebook-síðu sinni í dag.

Vísar Birgitta þar til tillögu formanna Samfylkingarinnar, Vinstrihreyfingarinnar - græns framboðs og Bjartrar framtíðar, þeirra Árna Páls Árnasonar, Katrínar Jakobsdóttur og Guðmundar Steingrímssonar, um afmarkaðar breytingar á stjórnarskránni og að haldið verði áfram vinnu við endurskoðun hennar á næsta kjörtímabili sem lögð hefur verið fram á Alþingi. Þingmenn Hreyfingarinnar hafa mótmælt því harðlega að stjórnarskrármálið verði afgreitt með þeim hætti.

„Svona tækifæri mun ekki bjóðast aftur“

„Þetta er fyrsta stjórnarskráin OKKAR þar sem öllum var boðið að taka þátt. Þetta ferli hefur fengið ítarlega umfjöllun og við gagnrýni brugðist í þeirri útgáfu sem nú liggur á þinginu og verið er að setja í tætara gleymskunnar. Svona tækifæri mun ekki bjóðast aftur, nema að fólk skilji að þessi svik fjórflokksins eru síendurtekið stef sem mun aldrei breytast nema með samstilltu átaki til að taka gerræðisleg völdin af valdhöfum,“ segir hún.

Birgitta segist hafa haldið að hægt yrði að taka þau völd af valdhöfunum með nýju stjórnarskránni sem yrði hænufet í átt að þeim stjórnarháttum sem ný öld kallaði á. Allt það sem ný stjórnarskrá hafi upp á að bjóða muni nú hverfa vegna þess að meirihluti þingsins hafi ekki dug í sér til þess að setja málið í lýðræðislegt ferli og láta kjósa um málið. Hún leggur áherslu á að ekki sé hægt að semja um nýju stjórnarskrána við Sjálfstæðisflokkinn og sama sé að segja um Framsóknarflokkinn.

Segir Guðmund hafa lofað að verja stjórina

„Verst finnst mér að sjá kempurnar sem hafa staðið með nýrri stjórnarskrá innan stjórnarflokkana falla í duftið og lúta vilja foringja sinna,“ segir Birgitta ennfremur og segist hafa öruggar heimildir fyrir því að foringi Bjartrar framtíðar hafi lofað að verja ríkisstjórnina vantrausti gegn því að tillaga hans um að stefnt yrði að því að ný stjórnarskrá tæki gildi á 70 ára afmæli lýðveldisins á næsta ári næði fram að ganga. Vísar hún þar til Guðmundar Steingrímssonar.

Birgitta segir að stóra spurningin sé hins vegar hvaða stjórnarskrá það yrði sem þá tæki gildi. Hún segir að ekkert í tillögu Árna Páls, Katrínar og Guðmundar tryggi að næsta þing muni virða þjóðaratkvæðagreiðsluna sem fram fór síðastliðið haust um stjórnarskrármálið. „Þetta ferli er skammarlegt og langt í frá raunsætt. Það er bara til eitt orð yfir það: UPPGJÖF.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka