„Þetta er bara ákveðin tækniþróun“

Birgitta Jónsdóttir, þingmaður Hreyfingarinnar, les ræðu sína í morgun af …
Birgitta Jónsdóttir, þingmaður Hreyfingarinnar, les ræðu sína í morgun af snjallsíma. Helgi Bernódusson, skrifstofustjóri Alþingis, situr í bakgrunni við hlið forseta Alþingis, Ástu Ragnheiðar Jóhannesdóttur. Skjáskot af Althingi.is

„Það er orðið æ algengara að þingmenn fari með iPad eða síma upp í púltið og við höfum ekki gert neinar sérstakar athugasemdir við það. Við höfum bara litið svo á að þetta væri svipað og að fara með skrifað blað,“ segir Helgi Bernódusson, skrifstofustjóri Alþingis, í samtali við mbl.is. Það vakti athygli í umræðum um störf þingsins á Alþingi í morgun þegar Birgitta Jónsdóttir, þingmaður Hreyfingarinnar, fór upp í ræðustól þingsins og las ræðu sína upp af snjallsíma.

„Þannig að við höfum ekki gert neinar athugasemdir og talið að það væri í lagi þó fólk væri með spjaldtölvur í salnum. Það sem við vildum ekki er að fá þessar svörtu fartölvur sem eru fyrirferðamiklar og stórar um sig þar sem þetta er náttúrulega ekki vinnusalur. Það hafa allir sína skrifstofu og geta unnið þar. Svo eru slíkar tölvur í hliðarherbergjum. En ég þori ekki að staðfesta að þetta sé í fyrsta skiptið sem lesin er ræða af snjallsíma,“ segir hann.

Helgi bendir ennfremur á að mörkin á milli spjaldtölva og snjallsíma séu orðin mjög óljós í raun „og við höfum ekkert viljað vera að þvælast fyrir þingmönnum að þessu leyti. Þannig að ef þeir vilja hafa hlutina svona og telja það hagkvæmt þá gerum við ekki neina athugasemd við það. Það er ekki nein truflun af þessu eða neitt slíkt. Þetta er bara ákveðin tækniþróun.“

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert